Þurfa að vísa fólki frá farsóttarhúsum

Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður sóttvarnahúsa segir einangrunarherbergin fullnýtt og vísa …
Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður sóttvarnahúsa segir einangrunarherbergin fullnýtt og vísa þurfi fólki frá húsunum. Ljósmynd/Almannavarnir

Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa hjá Rauða krossinum, segir að einangrunarherbergi húsanna séu fullnýtt og því þurfi að vísa fólki frá sem vonist til þess að geta varið einangrun sinni í farsóttarhúsi. Hann segir stöðuna afar þunga og slæma.

„Við þurfum bara að neita fólki um pláss í einangrun. Við erum með mjög harðar kríteríur um það hverjir komast inn til okkar og þurfum því miður að vísa sumum frá.“

Spurður hvort ástæða þess að vísa þurfi fólki frá séu ferðamenn í fimm daga sóttkví segir Gylfi: „Já, hundrað prósent. Við erum með nokkur hundruð herbergi sem eru nýtt undir  ferðamenn sem þurfa að dvelja í fimm daga sóttkví.“

Gylfi segir eðlilega mjög snúið að vega og meta hverjir geta verið í húsunum og hverjum á að vísa frá. Tekið sé tillit til ýmissa þátta við það, til að mynda búsetu viðkomandi og aðstæðum heima fyrir. Einnig séu þeir að hýsa fólk sem býr úti á landi, en þarf að vera í nálægð við spítalann breytist staðan til hins verra. Einnig sé skoðað hvort fólk sé í áhættuhóp eða með undirliggjandi sjúkdóm, eða þá að heima hjá fólki séu einstaklingar í áðurnefndum hópum. „Þetta er bara mjög flókin staða sem við erum í,“ segir Gylfi.

Engin viðbrögð frá ferðaþjónustunni

Spurður hvort hann viti til þess að ákall hans um aðstoð ferðaþjónustunnar eða hins opinbera hafi haft einhverja eftirmála segist hann ekki vita til þess. „Ég veit þó að ríkisstjórnin er búin að vera að skoða málið í vikunni, vonandi kemur eitthvað út úr því í dag.“

Er staðan þá þannig að annaðhvort þurfi ferðaþjónustan eða stjórnvöld að stíga inn annars þurfið þið áfram að vísa fólki frá?

„Já, það er bara staðan eins og hún er í dag.“

Upplifir þú það þannig að mögulega sé verið að bíða eftir því að takmarkanir á landamærum hafi þau áhrif að færri ferðamenn komi hingað. S.s. verið að bíða af sér storminn?

„Já, mögulega er það þannig. En ef svo er þá lengist bara listinn hjá okkur í millitíðinni og við þurfum að vísa fleirum frá.“

Erfitt að manna þegar að verkefnið stækkar daglega

Eins og áður hefur verið greint frá þá hefur einnig verið vandamál að manna húsin. Gylfi segir í raun stöðuna enn vera þannig. Þau séu ekki búin að fullmanna, enda sé það erfitt þar sem að verkefnið stækkar í sniðinu með hverjum deginum sem líður. „Við erum samt með fólk á prufuvakt nánast hvern einasta dag.“

En bakvarðasveitin, fáið þið enga aðstoð þaðan?

„Nei, bakvarðasveitin fellur ekki undir okkar starf, og sveitin er náttúrlega ekki svipur hjá sjón miðað við hvernig hún var hér í fyrra. Ég heyrði einhvers staðar að þetta væru nokkrir tugir manna í sveitinni. Ég held að það hafi verið á þriðja þúsund síðast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert