Þeir sem þurfa í sóttkví geta ekki lengur dvalið í farsóttarhúsi, að því er kemur fram í reglugerðarbreytingu Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Breytingin tekur að öllum líkindum gildi í næstu viku.
Þetta segir Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa hjá Rauða krossi Íslands, við mbl.is. Vísir greindi fyrst frá.
Gylfi segir þetta leysa þann bráða vanda sem Rauði krossinn stóð frammi fyrir, enda mun gestum þar fækka umtalsvert og álag á starfsfólki minnka.
„Þetta er bara stórkostleg breyting og verður til þess að frá því að þetta tekur gildi munum við geta sinnt öllum þeim sem þurfa á einangrun að halda í okkar húsum. Auðvitað er það þannig að margir, ef ekki flestir, geta verið í sóttkví heima hjá sér og úrræðið er fyrir þá sem ekki geta það af einhverjum ástæðum. En það er ljóst að þetta mun breyta okkar stöðu algjörlega á þann hátt að við getum einbeitt okkur að þeim sem mest þurfa á okkur að halda.“
Gylfi segir að þeim sem koma í sóttkví á farsóttarhús verði ekki hent þaðan út um leið og reglugerðin tekur gildi, heldur fái þeir að klára sóttkvína sem þangað koma fyrir gildistöku.
Hann segir að með reglugerðarbreytingunni leysist allur vandi farsóttarhúsa í einu vetfangi; skortur á húsnæði og mönnunarvandi.
„Þetta náttúrlega leysir mönnunarvandann og húsnæðisvandann, af því að nú getum við farið að nota Fosshótel Reykjavík meira og það léttir þá á hinum húsunum.“
Þrátt fyrir að mönnunarvandinn hafi nú verið leystur segir Gylfi að enn sé verið að ráða nýtt fólk. Hann segir að starfsfólk í farsóttarhúsum sé „alveg ótrúlegt“.
„Við erum að ráða, engu að síður, fólk til okkar til þess að hvíla það starfsfólk okkar sem hefur verið í þessum slag núna á annað ár.
Starfsmenn eru orðnir þreyttir, það er engin launung á því. Þetta er búið að vera mikið at núna undanfarna daga og vikur. En þetta er held ég besti hópur starfsmanna á landinu og fólk sem gæti leyst hvaða vandamál sem er. Ég held að þegar þessum faraldri lýkur þá verði slegist um þetta fólk.“