Fimmtán erlendir ferðamenn sem um borð voru í Herjólfi í gær greindust allir smitaðir af Covid-19. Ferðamennirnir fengu jákvæðar niðurstöður úr sýnatöku er komið var í Heimaey.
„Það voru farþegar í gær sem voru að ferðast frá Landeyjahöfn til Vestmannaeyja sem fengu símtal eftir að þeir komu til eyja um að þeir væru með jákvæðar niðurstöður,“ staðfestir Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri Herjólfs.
„Við fáum í raun og veru bara upplýsingar frá lögreglunni í Vestmannaeyjum sem annast þessa rakningu og fengum leiðbeiningar frá henni. Þessi hópur fór síðan yfir í Landeyjahöfn aftur og þau sátu í rútu inni á bíladekki.“
Hörður segir að ákveðnar vinnureglur séu til taks ef svona lagað kemur upp og gripið var til þeirra. „Við fengum síðan upplýsingar um hvernig við ættum að haga okkur og hvað við þyrftum að gera frá rakningarteyminu.“