Líkir einkennum Covid við jóladagatal

Egle Sipaviciute.
Egle Sipaviciute. mbl.is/Sigurdur Unnar Ragnarsson

Egle Sipaviciute hafði verið slöpp í viku og því haldið sig heima. Hún fékk neikvætt út úr sýnatöku á fimmtudegi og mætti því í gleðskap með vinum á laugardegi.

Hún taldi það öruggt þar sem hópurinn var lítill og hún þekkti alla. Nokkrum dögum seinna fékk hún símtal frá vinkonu sinni sem benti henni á að fara í sýnatöku því allar vinkonurnar væru orðnar veikar.

Á þriðjudeginum bólgnuðu í henni nefkirtlarnir og á miðvikudeginum hrakaði henni skyndilega. Taldi hún þá nokkuð ljóst að um Covid-19 væri að ræða. Egle fór í sýnatöku daginn eftir.

Hún hringdi sjálf í heilsugæsluna að morgni föstudags og fékk þá staðfest að hún væri smituð af Covid-19. Síðdegis sama dag hafði rakningarteymið svo samband og um kvöldmatarleytið kom bíll frá slökkviliðinu sem flutti hana á farsóttarhús, þar sem hún taldi sig eiga eftir að dvelja næstu tvær vikurnar.

Enginn reyndist smitaður

Aðeins fimm samstarfsfélagar Egle og foreldrar hennar, sem hún býr hjá, lentu í sóttkví. Ekkert þeirra reyndist smitað. Egle telur það sýna fram á vægi persónubundinna sóttvarna. Hún þreif hendur reglulega og bar jafnvel grímu heima hjá sér eftir að grunur kom upp um smit.

Egle fann ekki fyrir mikilli smitskömm því hún vissi að hún hafði ekki gert neitt rangt heldur lagt sig fram um að fylgja tilmælum ríkisstjórnar og sóttvarnalæknis. Hún var bólusett með Janssen-bóluefninu. Einkennin komu öll í einni dembu að sögn Egle.

„Þetta var eins og að opna jóladagatal, ég fékk ný einkenni á hverjum degi sem bættust ofan á hin,“ segir hún. Á þriðja degi missti hún allt lyktar- og bragðskyn sem henni þótti erfitt, enda mikill matgæðingur að eigin sögn.

„Mér leið ömurlega í fimm daga, gat ekki borðað án þess að fá hóstakast og því fylgdi hausverkur, verkir í baki og bringu,“ segir Egle en eitt sinn varði hóstakast hennar í heila klukkustund.

Enginn til að hugga mann

„Það er erfitt að vera einn á hótelherbergi þegar manni líður hvað verst. Þarna var enginn til að hugga mig eða knúsa og ég vissi ekki hvort þetta myndi versna eða skána. Þurfti bara að halda haus og bíða eftir að hóstakastið liði hjá.“

Einkennin fóru jafn hratt og þau komu hjá Egle. Hún lýsir því hvernig bragðskynið spratt í gang meðan hún var að gæða sér á sælgæti. Þá spratt hún á fætur og leitaði uppi snarl sem hún hafði tekið með sér á hótelið til að prófa bragðlaukana áfram.

Hún hitaði meðal annars upp pítsu, með hárblásara, en áður þótti henni pítsan bragðast eins og pappi. Einangrunin átti að standa yfir í fjórtán daga en á föstudag tók sóttvarnalæknir ákvörðun um að stytta einangrunartímann niður í tíu daga fyrir þá sem finna ekki fyrir einkennum á þeim tímapunkti, eru heilsuhraustir og bólusettir.

„Þetta var svo mikill léttir að ég hreinlega grét úr gleði,“ segir Egle um andartakið þegar hún fékk símtal um að hún myndi losna úr einangrun, fjórum dögum fyrir áætlaða útskrift

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert