„Merkilegt“ hve vel fór þegar rúta valt

Rúta Arctic Rafting. Fimmtíu voru um borð þegar rútan valt …
Rúta Arctic Rafting. Fimmtíu voru um borð þegar rútan valt á hliðina. mbl.is/Kristín Heiða Kristinsdóttir

Betur fór en á horfðist þegar rúta valt í Biskupstungum í gærkvöldi. Fimmtíu manns voru um borð í rútunni sem var á leið úr flúðasiglingu. 

„Ég held að þetta hafi farið merkilega vel, miðað við allt og allt,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi. 

Sveinn segir að hópurinn um borð í rútunni hafi verið blandaður, bæði íslenskir ferðamenn sem og erlendir af ýmsu þjóðerni. 

Að sögn lögreglu slasaðist enginn alvarlega í slysinu. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð á vettvang ásamt björgunarsveitum og sjúkrabílum. Sveinn segir að þrír hafi verið fluttir með þyrlunni, en það hafi frekar verið til að losa fólk af vettvangi en vegna alvarlegra meiðsla. 

Sveinn segir að ekki liggi fyrir hvort mikið tjón hafi orðið á rútunni. Verið sé að rannsaka tildrög slyssins. 

„Þetta er allt saman í rannsókn, hver aðdragandinn var nákvæmlega. Kanturinn gefur sig undan bílnum, það er svona það sem endanlega gerist,“ segir Sveinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert