Útbreiðslan á Covid-19 hefur aukist mikið hér á landi undanfarið, eins og víða annars staðar. Útbreiðslan hefur verið hröð, bæði meðal bólusettra og óbólusettra, og ljóst að bólusetning hér á landi hefur ekki skapað það hjarðónæmi sem vonast var til. Um er að ræða stærstu bylgju Covid-19 sem sést hefur hér á landi til þessa.
Fram kom í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna í dag að um 70% landsmanna væru nú fullbólusett. Hlutfallið væri 95% hjá þeim sem eru 60 ára og eldri, um 90% hjá 50 til 60 ára og um 80% í aldursflokknum 16 til 50 ára. Um tíu prósent barna á aldrinum 12 til 16 ára væru fullbólusett.
Þórólfur sagði að Delta-afbrigðið hefði nú tekið alveg yfir önnur afbrigði hér á landi. Fullbólusettir gætu smitast nokkuð auðveldlega af afbrigðinu og ljóst að bólusetningin hefði ekki skapað það hjarðónæmi sem vonast var til.
Þá sagði Þórólfur að komandi vika ætti að skera úr um hvort þær aðgerðir sem gripið var til innanlands fyrir viku myndu duga til þess að ná utan um smitið í samfélaginu.
Þórólfur segir að bólusetning muni vonandi koma í veg fyrir alvarleg veikindi. Um 1,6% smitaðra hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús í þessari bylgju en 4-5% í fyrri bylgjum. Hlutfall bólusettra sem hafa þurft að leggjast inn er um 1%, en hlutfallið er um 2,3% hjá óbólusettum, að sögn Þórólfs.
Aftur á móti sé ekki vitað hversu vel bólusetning verndar aldraða og þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma fyrir veikindum. Verið sé að skoða hvort hægt sé að gefa þessum hópi örvunarskammt bóluefnis.
Einnig hefur verið ákveðið að bjóða Janssen-þegum örvunarskammt sem og börnum á aldrinum 12 til 15 ára.