Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að það sé undir dómurum sjálfum komið að meta hæfi sitt þegar þeir taka að sér störf utan þeirra dómstóla sem þeir sitja við. Þar vísar Katrín til Páls Hreinssonar, forseta EFTA-dómstólsins, sem tók að sér að gera álitsgerð að beiðni Katrínar á meðan hann sat sem dómari.
Álitsgerðin sneri með almennum hætti um heimildir sóttvarnalaga og var hún birt 20. september síðastliðinn.
Katrín segir að ekki sé óvenjulegt að dómarar, eins og Páll, taki að sér störf eins og álitsgerðir að beiðni stjórnvalda.
Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins, skrifaði grein í Morgunblaðið á laugardag, þar sem hann lýsir gagnrýni sinni í garð Páls. Hafi Páll haft eitthvað sjálfstæði fyrir sem forseti EFTA-dómstólsins, hafi hann glatað því með því að skrifa álitsgerð fyrir íslenska ríkið, segir Baudenbacher.
Þannig vill Baudenbacher meina að Páll hafi skrifað álitsgerð um heimildir sóttvarnalaga á Íslandi, eitthvað sem síðan gæti komið til kasta EFTA-dómstólsins sjálfs. Undir þetta sjónarmið Baudenbachers tók Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, í samtali við mbl.is í gær.
Katrín segir þó að þar sem álitsgerð Páls fjalli ekki með sértækum hætti um þær aðgerðir sem íslensk stjórnvöld réðust í til þess að vinna bug á kórónuveirufaraldrinum, sé ekki endilega hætta á því að Páll hafi glatað hæfi sínu. Það sé þó hans sjálfs að meta.
„Ég og heilbrigðisráðherra lögðum fram þá tillögu í ríkisstjórn að fá Pál Hreinsson til að skrifa þessa álitsgerð og það var kynnt í ríkisstjórn. Það er ekkert ókunnugt að dómarar vinni álitsgerðir fyrir stjórnvöld og þeir meta hverju sinni stöðu sína sjálfir, það er að segja hvort slík vinna geti haft einhver áhrif á sitt hæfi.
Og Páll mat það þannig að svo væri ekki, enda lá það mjög skýrt fyrir að álitsgerðin tæki fyrst og fremst á almennum heimildum sóttvarnalaga en ekki einstökum ráðstöfunum sem íslensk stjórnvöld hefðu gripið til við þennan faraldur og kynnu þá að koma til kasta dómstóla,“ sagði Katrín við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
Þá segir hún að kalla mætti álitsgerð Páls „almenna fræðilega samantekt á lagasjónarmiðum og reglum sem líta þarf til þegar sóttvarnaráðstöfunum er beitt“.
„Og það er mjög skýrt tekið fram í inngangi álitsgerðarinnar, og þá er verið að fjalla um kröfur sem mögulega leiða að stjórnarskránni hvað varðar lögmætisreglu, jafnræðisreglu og meðalhófsreglu. Það er semsagt ekki fjallað um þessar einstöku ráðstafanir sem hægt er að bera undir dómstóla,“ segir Katrín og bætir við:
„En að öðru leyti er þetta bara þannig að dómarar meta bara sjálfir hvort slík vinna hafi áhrif á hæfi þeirra.“
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tekur í sama streng og Katrín og segir að það sé ekki við hæfi að stjórnvöld tjái sig um hæfi dómara, það sé á þeirra eigin forræði.
Hann segir jafnframt að íslensk stjórnvöld hafi undanfarin ár verið mjög áfram um að styrkja stoðir EFTA-stofnanna.
„Málefnaleg gagnrýni á stofnanir EES styrkir EES saminginn og treystir tveggja stoða kerfi hans. Ísland tekur slíka gagnrýni alvarlega enda hafa íslensk stjórnvöld verið í fararbroddi við að tryggja stöðu EFTA stofnananna um árabil. Að öðru leyti er ekki viðeigandi að íslensk stjórnvöld tjái sig þeð almennum hætti um hæfi dómara EFTA dómstólsins sem þeim sjálfum ber að gæta að í hverju einu dómsmáli,“ segir Guðlaugur í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.