„Ansi mikil þögn“ um hvernig skólastarf fari fram

Alþingi.
Alþingi. mbl.is/Brynjar Gauti

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis fundar á morgun klukkan 15. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra kemur fyrir fundinn ásamt Ragnari Þór Péturssyni formanni Kennarasambandsins.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar óskaði eftir fundinum, en hún segir tilefnið fyrst og fremst vera komandi skólabyrjun í skugga aukinna smita og hertra sóttvarnaaðgerða ríkisstjórnarinnar.

Fátítt er að nefnd­ir Alþing­is komi sam­an utan starfs­tíma þings­ins, sem hef­ur nú verið slitið fyr­ir alþing­is­kosn­ing­ar í haust.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar. Ljósmynd/Aðsend

Ráðherra þurfi að gera grein fyrir áætlunum

Menntamálaráðherra sagði í gær að stefnt væri að hefðbundnu skólahaldi eftir sumarfrí hjá leik-, grunn- og framhaldsskólum. Nú eru í gildi 200 manna almennar fjöldatakmarkanir og eins metra regla. 

Þorbjörg segist taka undir markmið um takmarkalaust skólahald og að ráðherra þurfi nú að gera grein fyrir áætlunum um hvernig því markmiði verði náð fram.

„Mér fannst mjög jákvætt að heyra að það yrði stefnt að því að skólahald verði með eðlilegum hætti, ég held að það sé mjög mikilvægt að svo sé – þetta er svo langur tími fyrir unglinga og krakka á öllum aldri sem það hafa verið raskanir á skólahaldi, sem er ekki bara þeirra skylda heldur líka þeirra réttur að fá að stunda,“ segir Þorbjörg. 

Þrjár vikur í skólastarf

„Menntamálaráðherra er búin að lýsa því yfir hvert markmiðið er, en það vantar enn þá upp á að hún svari því hvernig. Hún hefur sagt í fjölmiðlum að þau séu að fylgjast með ástandinu, en þremur vikum fyrir skólastarf er orðið fullseint að vera að fylgjast með. Ég ætla að trúa því og treysta að það hafi einhver vinna verið innan ráðuneytisins til að tryggja að skólastarf geti verið með eðlilegum hætti,“ segir Þorbjörg og bætir við:

„Mér finnst vera ansi mikil þögn um það hvernig þetta lítur út.“

Þorbjörg segir að nú þegar faraldurinn er talinn í árum en ekki mánuðum og mikil reynsla hafi hlotist af baráttunni við veiruna þurfi stjórnvöld að vinna í samræmi við það. Ekki þýði lengur að meta stöðuna hverju sinni. „Við þurfum að setja okkur markmið,“ segir Þorbjörg. 

„Mér finnst sérstakt að þurfa að kalla ráðherra á fund til þess að fá þessar upplýsingar, mér finnst að hún hefði átt að leiða það samtal sjálf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert