„Ekki hægt að sætta sig við mánaðar sumarfrí“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Í skoðun er að gefa viðkvæmum hópum þriðja skammtinn af bóluefni gegn alvarlegum veikindum vegna Covid-19, enda sé ekki vitað hve vel bólusetningin verndar þá.

Rúmur helmingur þeirra sem hafa lagst inn á Landspítalann vegna Covid-19 er bólusettur.

Ísraelar byrjuðu að gefa fullbólusettu fólki yfir sextugt örvunarskammta, síðasta föstudag. Þjóðverjar munu gera slíkt hið sama 1. september.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur sjálfsagt mál að gefa viðkvæmum hópum þriðja skammtinn en fyrst þurfi að ljúka við að gefa Janssen-þegum fyrsta örvunarskammtinn.

Þetta kemur fram í fréttaskýringu Morgunblaðsins í dag.

Viðbúið að bylgjurnar muni koma

„Ég skil ekki hvernig stendur á því að ekki er ráðist í bólusetningarherferð núna,“ segir Kári, en honum hefði þótt eðlilegast að bólusetja alla þá 50.000 sem fengu Janssen, í þessari viku. „Það er ekki hægt að sætta sig við mánaðar sumarfrí frá bólusetningum í miðjum faraldri.“

Bólusetningar virðast ekki virka vel sem smitvarnir en þær hafa reynst góð vörn gegn alvarlegum veikindum smitaðra. Kári segir viðbúið að hver bylgjan á fætur annarri berist til landsins uns 75 til 80 prósent þjóðarinnar hefur smitast. „Við þurfum bara að tryggja að hver bylgja sé ekki svo stór að hún bugi heilbrigðiskerfið og bugi atvinnuvegi þjóðarinnar.“

Spurður hvort hann telji þörf á að bólusetja alla þjóðina með þriðja skammti Pfizer segir Kári það fara eftir skilgreiningu á hugtakinu þörf. Það auki varnir að bólusetja með þriðju sprautu og eftir því sem varnir séu betri, þeim mun minni hætta sé á að fólk veikist.

„Það er ekki ólíklegt að smitvarnir aukist líka með þriðju sprautu en aðalávinningurinn er að koma í veg fyrir að menn verði lasnir.“

Börn og viðkvæmir á sama tíma

Bólusetning barna hefur verið í umræðunni og útlit er fyrir að það sé næsta verkefni á eftir seinni bólusetningu Janssen-þega.

Í ljósi þess að Ísland virðist eiga nægilegt magn af bóluefni, sér Kári enga ástæðu til annars en að gera hvort tveggja á sama tíma, bólusetja börn og viðkvæma hópa. Hann lofar frammistöðu heilsugæslunnar í síðustu bólusetningarherferð, fara þurfi í aðra slíka herferð.

Ítarlegri umfjöllun má lesa í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert