Litakortið að missa marks vegna bólusetninga

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/RAX

Bólusetningar gera það að verkum að litakóðunarkerfi Sóttvarnastofnunar Evrópu er aðeins að missa marks. Farið er að líta til fleiri þátta en hversu margir greinast smitaðir af Covid-19, svo sem til hlutfalls bólusettra og fjölda innlagna á spítala.

Þetta segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. Þá gildi víða ólíkar reglur um bólusetta og óbólusetta ferðamenn.

Líklegt þykir að Ísland verði rautt á morgun samkvæmt korti Sóttvarnastofnunarinnar, en það er uppfært á fimmtudögum. Ísland er appelsínugult sem stendur.

Einstök svæði að breyta sínum skilgreiningum

Bjarnheiður segir að rauð merking Íslands á kortinu væri vissulega ekki jákvæð en það hefði ekki endilega mikil áhrif á ferðaþjónustuna.

„Það mun ekki hafa þessar ofboðslegu afleiðingar sem við héldum að það myndi hafa því einstök svæði eru að breyta sínum skilgreiningum, eins og til dæmis Þýskaland,“ segir hún. 

Hún útskýrir að Þýskaland hafi gefið út nýtt kort í gær sem gildir frá 1. ágúst þar sem lönd eru flokkuð græn, gul eða rauð eftir áhættu. Þau svæði þar sem ný afbrigði af veirunni gætu komið fram eru rauð en sem stendur eru það eingöngu Brasilía og Úrúgvæ.

Ísland er grænt á kortinu en verður líklega gult innan skamms. Bólusettir Þjóðverjar þurfi ekki að skila inn neikvæðu Covid-prófi eða fara í sóttkví við heimkomu frá gulum ríkjum, en annað gildi um óbólusetta.

Óbólusettum ráðið frá ferðum til Íslands

Þá hafa Bandaríkin hækkað hættumat vegna ferða til Íslands í kjölfar fjölgunar kórónuveirusmita hér á landi en þar er einnig gerður greinarmunur á bólusettum og óbólusettum ferðalöngum. Bandaríkjamönnum sem hyggjast ferðast til Íslands er ráðlagt að ganga úr skugga um að þeir séu fullbólusettir en óbólusettum er ráðið frá ferðum hingað.

Bjarnheiður segir þetta skipta miklu máli enda séu Bandaríkjamenn sem komi hingað almennt bólusettir.

Ísrael virðist hins vegar ekki fylgja þessari þróun. Ísland er nú á rauðum lista þar og þurfa allir, bæði bólusettir og óbólusettir, að sæta sjö daga sóttkví og framvísa tveimur neikvæðum PCR-prófum við heimkomu til Ísraels frá Íslandi.

Kallar eftir upplýsingum

Bjarnheiður segist hafa kallað eftir upplýsingum í tilefni af þessu en telur að Ísraelar séu ekki stór hluti ferðamanna hér á landi og því sé þetta ekki mikið högg fyrir ferðaþjónustuna.

Hún segir hljóðið í ferðaþjónustuaðilum almennt ágætt en fólk sé á varðbergi og fylgist náið með stöðunni.

„Við erum náttúrlega að fylgjast með veikindunum, sem skipta öllu máli, það er hvort bóluefnið verndi okkur gegn alvarlegum veikindum,“ segir hún.

„Hins vegar er ágætisgangur í ferðaþjónustunni núna og við verðum ekki mikið vör við afbókanir enn sem komið er. En eins og ég segi er þetta umhverfi á fleygiferð og það er alltaf eitthvað nýtt á hverjum degi þannig að við tökum bara einn dag í einu í þessu.“

Aðgerðir verði ekki strangari en tilefni sé til

Aðspurð um væntingar til ríkisstjórnarinnar, nú þegar stjórnvöld móta næstu skref í viðbrögðum við faraldrinum, segir hún þær að tekið verði tillit til gagna og upplýsinga við ákvörðun á sóttvarnaráðstöfunum og þær verði aldrei strangari en tilefni sé til.

„Við auðvitað bindum vonir svo sannarlega við það að það þurfi ekki að ráðast í frekari aðgerðir, sérstaklega ekki á landamærum. Það er náttúrlega frumskilyrði þess að ferðaþjónustan geti þrifist að það verði ekki farið í miklu harðari aðgerðir á landamærunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert