Alls eru nú 18 sjúklingar inniliggjandi á Landspítalanum vegna Covid-19. Fimmtán sjúklingar eru á legudeildum og þrír á gjörgæslu.
Fram kemur í tilkynningu á vef spítalans að fjórir voru lagðir inn í gær vegna Covid-19. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að tveir þeirra hafi verið lagðir beint inn á gjörgæslu. Alls hafa 35 þurft að leggjast inn á sjúkrahús í fjórðu bylgju faraldursins.
1.413 eru nú í eftirliti á Covid-göngudeildar, þar af 251 barn. Enginn er á rauðu en 39 einstaklingar flokkast gulir og munu einhverjir þeirra koma til skoðunar í dag. 19 starfsmenn eru í einangrun (sóttkví A) og 88 starfsmenn eru í vinnusóttkví (sóttkví C).
Spítalinn ítrekar að brýnt sé að viðhafa grímuskyldu hvarvetna á spítalanum og virða tveggja metra reglu. Þeir starfsmenn spítalans sem eiga þess kost að stunda vinnu sína heiman frá eru hvattir til að gera það. Þá er áfram óskað sérstaklega eftir kröftum hjúkrunarfræðinga sem geta bætt við sig störfum næstu daga og vikur.
Í tilkynningunni kemur einnig fram að þeir starfsmenn Landspítalans sem fengu bóluefni Janssen hafi nú verið boðaðir til örvunarbólusetningar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.