Í fyrsta skiptið síðan á mánudag lekur hraun á Fagradalsfjalli og virðist hraunáin hafa tekið stefnu í aðra átt en áður. Þetta segir í færslu á facebooksíðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands.
Hraunið sést renna á vefmyndavél mbl.is
„Hraunárnar hafa nær alfarið runnið til austurs og niður í Meradali síðustu vikur, en hraunáin virðist núna hafa tekið stefnu í aðra átt. Hraun hefur til að mynda ekki lekið niður í Nátthaga í meira en mánuð og verður því spennandi að sjá hvort breyting verði þar á næstu tímana,“ segir í færslunni.
Þá segir að óróinn hafi verið á hægri uppleið síðustu sólarhringa en fyrst núna sé virknin nægilega kraftmikil til að mynda hraunstreymi út úr gígnum. Þá sjást einnig gusur skvettast innan í gígnum á ný.