Esther Hallsdóttir
Ísland er orðið rauðmerkt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu.
Kortið er uppfært á fimmtudögum og var Ísland appelsínugult þangað til í dag. Stuðst er við samræmdan litakóða þar sem lönd eru flokkuð í mismunandi hættuflokka eftir nýgengi smita og hlutfalli jákvæðra sýna.
Lönd eru rauðmerkt ef nýgengi Covid-smita síðustu fjórtán daga er ýmist hærra en 200, og lægra en 500, eða ef hlutfall jákvæðra sýna er hærra en fjögur prósent.
Nýgengi smita á Íslandi er nú 394,6 samkvæmt covid.is.
Litakóðunarkerfið hefur þann tilgang að veita upplýsingar um stöðu heimsfaraldursins í hverju landi fyrir sig svo hægt sé að bera þau saman og átta sig á aðstæðum.
Það er svo undir hverju landi komið hvaða takmarkanir kunna að fylgja í kjölfarið. Komið hefur fram að ríki séu í meira mæli farin að líta til fleiri þátta en fjölda smita í sínum tilmælum, svo sem bólusetningarhlutfalls og fjölda innlagna á spítala. Þá nota sum í Evrópu sín eigin yfirlitskort til að meta áhættu, svo sem Þýskaland og Bretland.
Í tilmælum frá Evrópusambandinu er mælt gegn ferðum til og frá rauðum svæðum.