Seinna í mánuðinum verða 30 ár liðin frá örvæntingarfullri valdaránstilraun átta háttsettra sovéskra embættismanna, áttmenninga sem vildu bjarga Sovétríkjunum frá þeirri glötun sem þeir töldu þáverandi leiðtoga ríksins, Mikhaíl Gorbatsjov, stefna að.
Valdaránstilraunin fór út um þúfur, sérstaklega fyrir tilstilli Boris Jeltsíns, lýðræðislega kjörins forseta Sambandslýðveldisins Rússlands og síðar fyrsta forseta Rússlands, og vegna þess að Gorbatsjov neitaði að segja af sér.
Dagarnir 19.-21. ágúst 1991 einkenndust af miklu uppþoti í Moskvu, höfuðborg Sovétríkjanna, sem þá hægt og rólega riðuðu til falls. Þar var staddur Ólafur Egilsson, þáverandi sendiherra Íslands í Moskvu, og er frásögn hans af valdaránstilrauninni á köflum lygileg.
Hann segir Morgunblaðinu frá því að Boris Jeltsín hafi boðað sig og aðra sendiherra á sinn fund, að morgni valdaránsdagsins, áður en hann klifraði upp á skriðdreka fyrir framan rússneska stjórnarráðið, messaði yfir Moskvubúum og las yfirlýsingu þar sem hann mótmælti valdaránstilrauninni – atburðir sem mörgum Moskvubúum eru eflaust ógleymanlegir.
Við skulum leyfa Ólafi að byrja á byrjuninni:
„Ég kom til starfa í Moskvu árið 1990 og var þess vegna þarna í ágúst ’91. Það var einn í hópi valdaránsmanna sem ég hafði beinlínis haft samskipti við fyrr á árinu, hann sat þá hádegisverð hjá mér í sendiráðsbústaðnum með okkur norrænu sendiherrunum. Þetta var Boris Pugo innanríkisráðherra, sá eini sem fyrirfór sér þegar valdaránstilraunin mistókst. Við norrænu sendiherrarnir vorum vanir að hittast einu sinni í mánuði í hádegisverð og bjóða þá gjarnan einhverjum málsmetandi gesti til þess að spjalla við okkur og Pugo hafði verið þarna með okkur síðla í janúar þetta ár. Ástandið í Eystrasaltsríkjunum var þá mjög alvarlegt. Gengum við fast á hann um fyrirætlanir Sovétstjórnarinnar og hvöttum til að hún héldi að sér höndum.“
Þeir sem fyrir valdaránstilrauninni stóðu voru þaulsætnir sovéskir stjórnmála- og embættismenn, íhaldsmenn sem mislíkaði nálgun Gorbatsjovs við stjórn ríkisins. Einna helst fór fyrir brjóstið á áttmenningunum Glastnost-Perestroika Gorbatsjovs, stefna sem hverfðist annars vegar um gildistöku prent- og tjáningarfrelsis og hins vegar viðskiptafrelsis innan Sovétríkjanna.
Það sem áttmenningunum mislíkaði einnig, eins og Ólafur útskýrir, voru fyrirætlanir Gorbatsjovs um að auka völd þeirra sambandslýðvelda sem til Sovétríkjanna heyrðu.
Áttmenningarnir voru Valentín Pavlov, forsætisráðherra Sovétríkjanna, áðurnefndur Boris Pugo, Dimitrí Jasov, varnarmálaráðherra og marskálkur í sovéska hernum, Valdimír Krústsjov, forstöðumaður KGB, Oleg Baklanov, varaformaður varnarmálanefndar Sovétríkjanna, Visiljí Starodúbstjev, formaður verkalýðssamtaka Sovétríkjanna, Aleksander Tisjakov, forseti bandalags ríkisstofnana, og loks Gennadí Yanajev, varaforseti Sovétríkjanna og hægri hönd Gorbatsjovs.
Mynduðu þeir nefnd sem ráða átti bót á því sem kallað var „neyðarástand ríkisins“, þ.e. stjórnarháttum Gorbatsjovs. Nefndin kom fram opinberlega síðdegis hinn 19. ágúst og lýsti því yfir að Yanajev tæki við völdum í Sovétríkjunum þar sem Gorbatsjov væri ekki heill heilsu. Hann óskaði Gorbatsjov, sem hann kallaði „vin sinn“, skjóts bata.
Yfirlýsing Yanajevs var lesin í sovéska ríkissjónvarpinu og sýnt var beint frá blaðamannafundi nefndarinnar. Ólafur lýsir því að Yanajev hafi verið um margt ótraustur maður, hann hafi verið drykkfelldur og þar að auki áberandi skjálfhentur, sem mörgum þótti ekki traustvekjandi í umræddri sjónvarpsútsendingu.
Nálægt hádegi 19. ágúst hafði Boris Jeltsín staðið á skriðdreka rauða hersins fyrir framan rússneska stjórnarráðið og lýst yfir vanþóknun sinni á væntanlegri valdaránstilraun, sem nefndin kynnti íbúum Sovétríkjanna og heimsbyggðinni allri í beinni útsendingu.
„Morguninn sem það spyrst út að sendur hafi verið mannskapur af valdaránsmönnum suður í land til þess að handtaka Gorbatsjov [sem þá var staddur á Krímskaga] og setja hann í stofufangelsi kemur boð í sendiráðið til okkar um að Boris Jeltsín vilji fá til sín nokkra sendiherra seinna um morguninn í stjórnarráðið.
Og ég fer þangað, en það var reyndar augnabliksspurning vegna þess að sendiherrar og sendiráðsfólk reynir alla jafna að komast hjá því að blanda sér í innanríkismál þeirra landa sem þau reka erindi sín í, en þarna var svo ljóst hvað var á ferðinni að ég var fljótur að þiggja þetta boð. Og ég var þarna á fundi þar sem Jeltsín útskýrði sína afstöðu og sína einörðu andstöðu við valdarán.
Hann bað okkur svo að hraða okkur til sendiráða okkar, því við værum eina örugga leiðin fyrir hann til að koma sinni afstöðu á framfæri við heimsbyggðina. Var það vegna þess að hann átti allt eins von á því að reynt yrði að taka stjórnarráðið hvenær sem væri og handtaka sig.
Og það er sem sé í framhaldi af þessum fundi sem hann fer upp á skriðdrekann og les yfirlýsingu sem var þess sama efnis og hann hafði lesið fyrir okkur sendiherrana. Það var tvísýnt í upphafi hvernig þetta allt saman færi, en svo skýrðist það brátt og ljósara varð að Jeltsín var að ná yfirhöndinni.“
Ólafur segir að þótt Gorbatsjov hafi ekki látið af völdum fyrr en undir árslokin árið 1991, þegar Sovétríkin féllu endanlega, hafi Jeltsín klárlega verið orðinn vonarstjarna Rússa, sérstaklega vegna framgöngu sinnar í miðju valdaráninu.
Hann segir einnig að áttmenningunum hafi yfirsést að taka Jeltsín höndum, eins og þeir ætluðu að taka Gorbatsjov höndum. Hefðu þeir gert það hefðu atburðirnir í ágúst 1991 ugglaust getað endað allt öðruvísi og saga Sovétríkjanna mögulega lengst til muna.
Kynni Ólafs af Jeltsín voru góð. Þegar Jeltsín varð forseti Sambandslýðveldis Rússlands, eins 15 sambandslýðvelda sem lutu Sovétstjórn, var honum mjög í mun að brjótast undan valdi Kremlverja, rétt eins og leiðtogar Eystrasaltsríkjanna á þeim tíma. Raunar rifjar Ólafur það upp að málefni Eystrasaltsríkjanna hafi borið á góma á einum fundi þeirra tveggja snemma sama ár.
„Hann studdi sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og hafði lagt leið sína til tveggja þeirra, Eistlands og Lettlands, dagana áður en Jón Baldvin Hannibalsson, þáv. utanríkisráðherra, fór þangað í sína frægu för. Þá var ástandið þar svo krítískt, þarna fyrr á árinu 1991, að Jeltsín vildi sýna þeim kröftugan stuðning og var nýkominn þaðan þegar ég ræddi síðan við hann.
Hann lýsti því fyrir mér að sér hefði verið ráðið frá því að fara til Litháens vegna ástandsins þar. Það undirstrikar hversu hættulegt ástand var þarna á þeim tíma sem Jón Baldvin er þar á ferðinni.“
Svo lýsir Ólafur því nánar þegar áðurnefndur Boris Pugo innanríkisráðherra hitti norrænu sendiherrana í hádegisverðinum í boði Ólafs, til þess að ræða málefni Eystrasaltsríkjanna, snemma ársins 1991.
Ólafur segir að sendiherrarnir hafi þjarmað að Pugo og úr hafi orðið hitafundur, vegna þess að sovéski herinn hafði verið að hafa sig í frammi gagnvart íbúum Eystrasaltsríkjanna. Var þá spurning um hvort sovéski herinn hafði gert það af sjálfsdáðum eða eftir skipunum Kremlverja, sem Pugo þvertók þá fyrir.
Þegar valdaránstilraunin rennur endanlega út í sandinn hinn 21. ágúst, þremur dögum eftir að hún hófst, eru áttmenningarnir handteknir og færðir fyrir dómara. Boris Pugo forðaðist þó handtöku, eins og fyrr segir, með því að stytta sér aldur 22. ágúst.
Mennirnir sem skipuðu nefndina alræmdu voru allir dæmdir fyrir landráð, auk þriggja annarra. Þeirra á meðal var Anatoly Lúkjanov, forseti sovéska þingsins, sem Ólafur hafði áður hitt, m.a. þegar þingforsetinn sem staðgengill Gorbatsjovs forseta tók við trúnaðarbréfi Ólafs við upphaf sendiherrastarfanna árið áður.
Áttu þeir þá langan fund þar sem m.a. kom fram góð þekking Lúkjanovs á íslenska þjóðveldinuá fundi. Lúkjanov var legið á hálsi fyrir að hafa ekki án tafar kvatt saman þing þegar valdaránstilraunin hófst.
Hinn 23. febrúar 1994 var öllum sakborningum boðin náðun af hálfu rússneska þingsins, Dúmunnar, sem þeir höfðu allir þegið þegar dómur síðan féll örfáum dögum síðar. Frá handtökum áttmenninganna og þar til dómur féll máttu flestir þeirra dúsa í fangelsi, en þó hlutu einhverjir þeirra síðar náð rússnesku þjóðarinnar og voru meðal annars kosnir á þing aftur, þ.á m. Lúkjanov.