Breyting Sigurðar Inga Jóhannssonar samgönguráðherra á reglugerð, um skyldu flugrekenda til að kanna vottorð vegna kórónuveirunnar í millilandaflugi, virðist í ósamræmi við þau lög sem breytingin á að byggja á.
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fullyrðir þetta í pistli sem hún birtir á vefsíðu sinni, sigridur.is.
Breytingin tók gildi fyrir rúmri viku, þriðjudaginn 27. júlí, og kveður á um að farþegi, sem framvísi viðurkenndu vottorði um bólusetningu eða fyrri sýkingu, skuli að auki framvísa vottorði um neikvæða niðurstöðu í veiruprófi sem ekki sé eldra en þriggja sólarhringa.
Sigríður bendir á að í lok maí síðastliðins hafi Alþingi samþykkt að breyta lögum um loftferðir, frá árinu 1998, með bráðabirgðaákvæði.
Með ákvæðinu var samgönguráðherra veitt heimild til að leggja þá tímabundnu skyldu á flugrekendur að kanna hvort farþegar hafi tilskilið vottorð áður en farið er um borð í flugvél.
Sigríður leggur þó áherslu á að bráðabirgðaákvæðið takmarki skyldu flugrekenda við það að óska aðeins eftir einu vottorði af þremur mögulegum.
Vísar hún beint í ákvæðið og feitletrar til að undirstrika möguleikana þrjá:
„Ef hætta er á að farsóttir berist til eða frá Íslandi, og almannaheilbrigði krefst, er ráðherra heimilt að kveða á um tímabundnar skyldur flugrekenda/umráðenda loftfars til að tryggja sóttvarnir með reglugerð, sem hér segir:
a. Skyldu til að kanna hvort farþegi hafi fullnægt skyldu til forskráningar og hafi tilskilið viðurkennt vottorð um ónæmisaðgerð gegn COVID-19 (SARS-CoV-2), vottorð um að COVID-19-sýking sé afstaðin eða vottorð eða staðfestingu á neikvæðri niðurstöðu prófs gegn COVID-19 (SARS-CoV-2) áður en farið er um borð í loftfar, enda hafi slík skylda verið lögð á farþega á grundvelli sóttvarnalaga.“
Hún tekur fram að fyrri reglugerð, sem Sigurður Ingi setti 1. júní, hafi verið í fullkomnu samræmi við þennan texta laganna. Svo virðist aftur á móti sem þessi breyting sé ekki í samræmi við lögin, segir Sigríður.
„Er það mat ráðherra að lögin bjóði upp á að skyldan verði víkkuð út til þess að óska eftir tveimur þeirra vottorða sem talin eru upp í a. lið lagatextans? Rifjum upp að breyting á lögum um loftferðir var gerð í þeim tilgangi að renna lagastoð undir þá framkvæmd sem þá var orðin að heimila bólusettu fólki komu til landsins án annarra kvaða. Skortur á umræðu um þetta atriði vekur furðu mína,“ skrifar hún.
„Að lokum rifja ég upp að heimild samgönguráðherra til þess að leggja þessa skyldu á flugrekendur átti samkvæmt frumvarpi samgöngu- og umhverfisnefndar að gilda til loka ársins 2022. Langt umfram það sem bráð hætta eða aðsteðjanda ógn gæti fyrir fram talist. Ég lagði til styttingu á þessu ákvæði og það varð úr að heimildin gildir einungis út þetta ár. Ætlun stjórnvalda var hins vegar ljós.
Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í nafni sóttvarna og sagðar eiga að vera tímabundnar verða það aldrei í hugum þeirra sem setja reglur um þær. Það verður aldrei horfið frá þeirri frelsisskerðingu og mannréttindabrotum sem sóttvarnaaðgerðir hafa haft í för með sér nema skýr forysta sé um það. Þá forystu verður ekki að finna hjá núverandi stjórnvöldum.
Hún er vissulega skref í rétta átt sú yfirlýsing sóttvarnalæknis í í vikunni um að hann muni framvegis leggja til aðgerðir með öðrum hætti og að það sé framvegis kjörinna fulltrúa að taka ákvörðun um framhaldið.
En þá þurfa að vera til staðar í brúnni kjörnir fulltrúar sem hafa einhvern vott af sannfæringu í þessum málum og staðfestu til að taka af skarið. Þá hefur vantað hingað til við ríkisstjórnarborðið. En nú kunna þeir einn af öðrum að láta sig falla réttu megin hryggjar.“