Stjórnendum sagt að svara ekki fjölmiðlum

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. Ljósmynd/mbl.is

Stjórnendum Landspítalans barst í gær tölvupóstur þar sem segir að þeir skuli ekki svara símtölum frá fjölmiðlum heldur skuli þeir alltaf vísa öllum fyrirspurnum fjölmiðla, sama hverjar þær séu, á Stefán Hrafn Hagalín, deildarstjóra samskiptadeildar Landspítalans. Vísir greindi fyrst frá.

„Ég vil því biðja ykkur að vísa alltaf og öllum fyrirspurnum fjölmiðla – sama hverjum  á mig og ég útdeili þeim síðan aftur á þau ykkar sem eru til svara og laus hverju sinni.“

Þá segir einnig að það sé ágætis regla að svara alls ekki beinum símtölum fjölmiðla sem kallaðir eru skrattakollar í póstinum.

Ekki náðist í Pál Matthíasson, forstjóra Landspítalans, við gerð fréttarinnar.

Tölvupóstinn í heild sinni má lesa hér fyrir neðan:

Góða kvöldið, kæru stjórnendur!

Við erum aðeins að lenda í því í faraldrinum að fjölmiðlar hafa komist yfir símanúmer stjórnenda og eru að hringja í þá beint með fyrirspurnir.

Stundum eru þetta einfaldar og auðsvaraðar beiðnir um upplýsingar og stöðu, en oftar en ekki flóknar fyrirspurnir um viðkvæm málefni sem krefjast yfirlegu.

Þið standið ykkur auðvitað frábærlega í öllum ykkar svörum, hartnær undantekningalaust, og auðvitað svarið þið alltaf eftir bestu vitund og oft til að létta af öðrum þeirri kvöð.

En með þessu móti tapið þið að sjálfsögðu bæði hvíld (þessir skrattakollar hringja 24/7) og spítalinn allri yfirsýn og stefnufestu.

Við fáum 5-10 fyrirspurnir til ykkar daglega með þessum hætti og annað eins kemur til mín beint.

Safnast þegar saman kemur!

Ég vil því biðja ykkur að vísa alltaf og öllum fyrirspurnum fjölmiðla – sama hverjum  á mig og ég útdeili þeim síðan aftur á þau ykkar sem eru til svara og laus hverju sinni.

Einnig er hreinskilnislega yfirhöfuð ágætis regla að svara bara alls ekki ekki beinum símtölum fjölmiðla (Mogginn er 569…, RÚV er 512… o.s.frv., þið kunnið þetta).

Blaðamenn og fjölmiðlar vita ALLIR algjörlega 100% hvert þau eiga og geta leitað þegar þið svarið ekki beint, ekki hafa áhyggjur af neinu öðru.

Þetta gildir sérstaklega um þau ykkar sem standa næst stjórn mála í faraldrinum og þurfið kannski mest á hvíld að halda.

Nú skuluð þið hvíla ykkur.

Baráttukveðjur,

– Stefán Hrafn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka