262 milljóna króna lækkun

Fasteignamat Hótels B59 er talið hafa verið mjög hátt síðustu …
Fasteignamat Hótels B59 er talið hafa verið mjög hátt síðustu ár. Ljósmynd/Baldur

Þjóðskrá hefur lækkað fasteignamat á húseign B59 hótels að Borgarbraut 59 í Borgarnesi um 262 milljónir króna eða um þriðjung frá fyrra mati. Kemur leiðréttingin í kjölfar úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar sem kveðinn var upp fyrir rúmu ári um að matið væri ekki rétt og það bæri að gefa út að nýju. Hótelið á inni milljónir í ofgreiddum fasteignagjöldum hjá Borgarbyggð.

Eigandi hótelsins, BS-eignir ehf., á jafnframt verslunar- og skrifstofuhúsnæði í samtengdri byggingu. Fyrirtækið sýndi fram á það við málareksturinn hjá Þjóðskrá og yfirfasteignamatsnefnd að mat hótelsins og annarra hluta bygginganna væri miklu hærra en á öðrum hótelum í sveitarfélaginu og hótelum á Suðurlandi sem eru í svipaðri fjarlægð frá Reykjavík. Yfirfasteignamatsnefnd komst að þeirri niðurstöðu í maí á síðasta ári að matið væri ekki rétt.

Heildarmatsverð húsanna hefur nú verið lækkað úr 876 milljónum í 587 milljónir kr. Þar af er hótelhlutinn metinn á 513 milljónir kr. í stað 776 milljóna áður.

Víðar pottur brotinn?

Í úrskurði yfirfasteignamatsnefndar kom fram að það orkaði tvímælis að beiting þeirrar matsaðferðar sem Þjóðskrá notaði væri í samræmi við lög.

Spurður hvort leiðréttingin hafi fordæmisgildi um aðrar hótelbyggingar eða verslunar- og skrifstofuhúsnæði segist Hjörleifur B. Kvaran, lögmaður BS-eigna ehf., ekki hafa trú á því að þetta sé einstakt tilfelli.

Hann segist ekki hafa forsendur til að fullyrða að fasteignamat sé almennt rangt reiknað en víðar en þarna kunni þó að vera pottur brotinn. Ráðleggur hann eigendum slíkra mannvirkja að skoða fasteignamat á eignum sínum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert