DV hefur kært Landspítalann til úrskurðarnefndar um upplýsingamál vegna synjunar um upplýsingagjöf um bólusetningarstöðu þeirra sem leggjast inn á spítalann, hvort tveggja á gjörgæslu og á almenna legudeild, vegna Covid-19.
Frá þessu er greint á DV.
Landspítalinn gaf það út í síðustu viku að upplýsingar um bólusetningarstöðu þeirra sem leggjast inn á sjúkrahús vegna veirunnar yrðu framvegis ekki veittar vegna persónuverndarsjónarmiða.
Í röksemdafærslu með kæru DV til úrskurðarnefndarinnar segir m.a.:
Óumdeilt er að upplýsingar um stöðu bólusetninga inniliggjandi sjúklinga á LSH eiga erindi við almenning. Um fátt annað er rætt þessa stundina en gildi, virkni og árangur bólusetningarátaks hins opinbera. Málið er í senn stærsta átakamál almennings og íslenskra stjórnmála, og hangir framtíð ákvarðanatöku stjórnvalda um svonefndar innanlandstakmarkanir, sem og aðgerðir á landamærunum, einmitt á því hvort hópur bólusettra á á hættu að lenda inni á sjúkrahúsi eða gjörgæslu. Spurningin um hvort fólkið sem er að veikjast af völdum faraldursins sé bólusett eða ekki er því grundvallaratriði í upplýstri áframhaldandi umræðu um sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda.
Án slíkra upplýsinga er hætt við að geta almennings til þess að mynda sér sína eigin, sjálfstæða og upplýsta skoðun á aðgerðum stjórnvalda, sem margar hverjar takmarka grundvallarmannréttindi fólks til þess að koma saman, ferðast, fara út úr húsi, o.fl., verði verulega takmörkuð.
Er þess krafist að úrskurðarnefndin geri Landspítalanum skylt að veita DV upplýsingar.