Drífa Snædal forseti Alþýðusambands Íslands gerði hæstu taxtalaun, og hlutfallslega hækkun þeirra miðað við lægstu taxtalaun, að umræðuefni í vikulegum pistli sínum. Hún beinir því sérstaklega til þingmanna sem fengu ríflega 75 þúsund króna launahækkun 1. júlí.
„Í janúar síðastliðnum hækkuðu taxtalaun um 24 þúsund krónur en almenn hækkun launa var 15.750 krónur. Þau sem muna kjarabaráttuna í upphafi árs 2019 vita vel hvað þurfti mikið átak til að ná slíkum árvissum hækkunum í þriggja og hálfs árs samningi,“ segir í pistli Drífu.
Hún segir markmið samninganna hafa verið að hækka lægstu laun umfram almennar launhækkanir og þannig jafna stöðuna. Það skilaði sér meðal annars í 75 þúsund króna hækkun á þingfararkaupi fyrr í ár en laun þeirra miðast við launavísitölu opinberra starfsmanna.
„Enn á ný eru æðstu hópar samfélagsins undanskildir frá því sem um almenning gildir,“ segir Drífa.
Umræðan um faraldurinn er til þess fallin að varpa skugga á grundvallarmál sem þessi að mati Drífu. Mikil óvissa er enn uppi um hvaða leið stjórnvöld ætla sér í baráttunni við veiruna og á meðan smitum fjölgi megi aldrei gera lítið úr veirunni sem hún segir skæða.
„Fólk í framlínunni; sem vinnur í verslunum og þjónustu, við umönnun, kennslu og í heilbrigðiskerfinu getur ekki búið við annan eins vetur og var í fyrra. Þolmörkunum er náð en óvissa um framhaldið er verst. Álagið og afkomuóttinn sem fylgt hefur þessum vágesti er lamandi og því brýnasta málið að tryggja fulla mönnun og hvíld vinnandi fólks og aðlaga atvinnuleysistryggingakerfið að sveiflóttum vinnumarkaði í skugga veirunnar,“ segir í pistli Drífu.