Talsverður munur er á almennum reglum um grímunotkun milli Norðurlandanna. Grímuskylda hér á landi er mun víðtækari en á hinum Norðurlöndunum.
Af Norðurlöndunum eru Danmörk og Ísland einu rauðu löndin samkvæmt korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Noregur er að hluta grænn og hluta appelsínugulur og hvort tveggja Svíþjóð og Finnland eru appelsínugul, rétt eins og Ísland var þar til í gær.
Hér á landi er grímuskylda þar sem ekki er unnt að tryggja eins metra nálægðarmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum.
Fram kemur á covid.is að andlitsgrímur skuli nota þar sem ekki er unnt að tryggja 1 metra nálægðarmörk svo sem í heilbrigðisþjónustu, verslunum, söfnum, innanlandsflugi og ferjum, almenningssamgöngum, leigubifreiðum og hópbifreiðum, í verklegu ökunámi og flugnámi, starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa, nuddstofa, húðflúrstofa, hundasnyrtistofa, sólbaðsstofa og annarri sambærilegri starfsemi.
Þá er hér á landi grímuskylda fyrir áhorfendur á íþróttaviðburðum og sviðslistarviðburðum á borð við leiksýningar, bíósýningar og tónleika.
Í Finnlandi er svæðisbundnum stjórnvöldum falið að ákvarða grímuskyldu í samræmi við ástandið í faraldrinum á hverjum stað. Almenn grímuskylda er í almenningssamgöngum, en þar fyrir utan er engin almenn grímuskylda í gildi. Stjórnvöldum á hverjum stað eru veittar heimildir til að koma á grímuskyldu innandyra.
Í Noregi er almenn grímuskylda í gildi fyrir eftirfarandi aðstæður: Þegar fólk ferðast með almenningssamgöngum á stað þar sem það á að sæta sóttkví og þegar þú yfirgefur Noreg án þess að hafa lokið sóttkví og ferðast með almenningssamgöngum á brottfararstað úr landinu. Þá er í gildi sú regla að læknir meti ástand fólks sem er í sóttkví eftir að hafa verið útsett fyrir smiti, til þess að ferðast með almenningssamgöngum á viðeigandi stað fyrir sóttkví.
Stjórnvöld í Noregi mæla jafnframt með grímunotkun þegar smitaðir einstaklingar, eða einstaklingar með einkenni, þurfa að gera hlé á einangrun til þess að fara í sýnatöku eða leita sér heilbrigðisþjónustu, þegar einstaklingar með staðfesta eða mögulega Covid-sýkingu geta ekki haldið tveggja metra fjarlægð frá þeim sem deila með þeim heimili og þegar þú átt í samskiptum við einstakling með staðfesta eða mögulega Covid-sýkingu sem getur sjálfur ekki notað grímu. Sem áður segir er mælt með grímunotkun við þessar aðstæður, án þess að það sé skylda.
Þá hafa svæðisbundin stjórnvöld í Noregi, rétt eins og í Finnlandi, heimild til að ákvarða frekari grímuskyldu.
Í Svíþjóð er engin grímuskylda en í Danmörku er í gildi grímuskylda á flugvöllum og ef staðið er upp í almenningssamgöngum. Þá er fólki ráðlagt að nota grímur eða andlitsskjöld á sýnatökustöðum og á sjúkrahúsum.