Horfa þangað sem eldurinn brennur

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í dag. mbl.is/Unnur Karen

Bólusettir farþegar með tengsl við Ísland muni frá og með 16. ágúst þurfa að fara í sýnatöku innan 48 klukkustunda frá komunni til landsins. Þetta tilkynnti ríkisstjórnin að loknum fundi sínum í dag. 

Bólusettir ferðamenn með tengsl við Ísland þurfa því þannig að fara í tvöfalda skimun án sóttkvíar á milli, fyrst áður en komið er til landsins og síðan eftir komuna. 

„Útfærslan verður núna unnin með sóttvarnayfirvöldum og við erum þá að horfa til þess að þetta eru íslenskir ríkisborgarar eða fólk með fasta búsetu hér, eða fólk sem er að koma hingað til lengri tíma til vinnu eða eitthvað slíkt,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is.

„Þetta gerum við á þeim rökstuðningi sem við höfum fengið frá sóttvarnalækni að fólk sem er í miklum tengslum við samfélagið sé líklegra til að dreifa smitum. Við erum líka að heyra það mjög skýrt frá sérfræðingum að það skiptir miklu máli að þétta þessar varnir gegn nýjum afbrigðum.“

Ákvörðun um bólusetningu unglinga tekin af sérfræðingum

Katrín segir að auk þess sem gripið sé til frekari takmarkana á landamærunum verði ráðist í frekari bólusetningar. 

„Við förum í það verkefni núna í ágúst að annarsvegar ljúka örvunarskömmtum hjá Janssen-fólki og hins vegar að hefja örvunarskömmtun hjá viðkvæmum hópum; öldruðu fólki og fólki með undirliggjandi sjúkdóma,“ segir Katrín, en gert er ráð fyrir að umræddar bólusetningar taki um mánuð. 

Um bólusetningar barna á aldrinum 12 til 15 ára segir Katrín:

„Sú ákvörðun byggir algjörlega á bestu ráðum sóttvarnalæknis, sóttvarnayfirvalda og þau taka þá ákvörðun bara út frá sínu mati og hagsmunum barnanna. Við erum algjörlega undirbúin fyrir að ráðast í þá framkvæmd, að bjóða foreldrum bólusetningu fyrir börn á aldrinum 12-15 ára, þegar og ef sú ákvörðun kemur. Hún er tekin af sóttvarnayfirvöldum, ekki pólitískt.“

Heilbrigðiskerfið geti staðið undir hlutverkinu

Ekki var tekin ákvörðun um framhald aðgerða innanlands á ríkisstjórnarfundi í dag. Aftur á móti kom fram í máli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að áhersla verði lögð á að efla Landspítalann. 

Spurð hvort að nú sé frekar verið að horfa til spítalans en aðgerða sem miða að því að fækka smitum segir Katrín:

„Það sem við erum að horfa til er hvar brennur eldurinn. Það er kannski fyrst og fremst að spítalinn geti tekið við þeim sem alvarlega veikjast, sem eru hlutfallslega miklu færri en áður þrátt fyrir fjölda smita.

Þá viljum við horfa til þess hvað sé hægt að gera til að tryggja að heilbrigðiskerfið geti staðið undir því hlutverki og við erum búin að vera funda með þessum aðilum líka þannig að við séum alltaf að vinna eftir þeim markmiðum um að lágmarka samfélagslega- og efnahagslega ábyrgð samhliða því að lágmarka veikindi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert