Líkur íslenskra kvenna á að fá grunnfrumu- eða flöguþekjumein í húð hafa farið úr 3,2% yfir í 10,1% á síðustu 40 árum. Líkur karla hafa einnig aukist en eru þó lægri, fara þær úr 2,8% yfir í 7,3%. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsókna Jónasar A. Aðalsteinssonar sérnámslæknis. Er þetta í ósamræmi við rannsóknir erlendis sem benda til að karlar séu líklegri en konur til að fá húðkrabbamein.
Að sögn Jónasar má sjá mikla aukningu húðmeina hjá íslenskum konum niður í 35 ára aldur en til samanburðar var aukningin mest hjá íslenskum körlum yfir sextugu. Gæti þetta skýrst af því að konur sækja frekar í ljósabekki heldur en karlmenn. Aukning á húðmeinum á búk og fótleggjum kvenna styðja einnig við þá tilgátu en þetta eru svæði sem eru almennt ekki mikið berskjölduð fyrir sólarljósi á Íslandi.
Niðurstöðurnar bentu einnig til þess að lyf á borð við HCTZ, TNF-alpha hindrar og statín, hafi áhrif á grunnfrumu- og flöguþekjumein.
Rannsóknin hefur vakið athygli erlendis en gögnin sem Jónas byggir á eru oftast ekki skráð eða varðveitt í flestum öðrum löndum. Hefur hann nú hlotið tvær viðurkenningar, Howard Levine verðlaunin og verðlaun frá Háskólanum í Connecticut.