Ráðast í aðgerðir fyrir Landspítala

Svandís Svavarsdóttir fyrir utan Ráðherrabústaðinn í dag.
Svandís Svavarsdóttir fyrir utan Ráðherrabústaðinn í dag. Unnur Karen

Aðgerðir til að efla viðbragðsþol heilbrigðiskerfisins, þá helst Landspítalans, í baráttunni við Covid-19 koma til framkvæmda á allra næstu dögum. Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi fyrr í dag.

Aðgerðirnar eru margþættar og eru sagðar munu verða kynntar betur í tilkynningu sem send verður fjölmiðlum.

„Þetta eru aðgerðir sem lúta að mönnun og tækni og líka að þessum útskriftarvanda og stuðningi annarra stofnana í kring við bæði fólk sem er tilbúið til að útskrifast, þá aldrað fólk, og líka möguleika til að styðja við landspítalanum varðandi legusjúklinga. Við erum komin af stað með þetta nú þegar og sumar af þessum aðgerðum eru komnar í virkni,“ segir Svandís.

Fram hefur komið að vandi Landspítalans sé að miklu leyti mönnunarvandi sem getur tekið langan tíma að leysa. Sérðu fyrir þér að þessar aðgerðir geti komið til framkvæmda hratt?

„Já sumt af þessu er að gerast á þessum dögum, þannig að við ættum að geta séð áhrifin af þessum einn, tveir og þrír. Sumt er til aðeins lengri tíma og það hefur sinn gang.“

Spurð um aðgerðir sem taka sérstaklega á mönnunarvanda spítalans nefnir hún meðal annars að kalla fólk fyrr inn úr sumarfríum, nýta bakvarðasveitir heilbrigðiskerfisins, þar sem heilbrigðisstarfsfólk sem er komið á lífeyri hefur meðal annars skráð sig, sem og „ýmsar stærri og minni aðgerðir sem geta haft áhrif og stutt við“.

Bólusetningarnar veiti gríðarlega mikla vörn

Svandís segir smittölur ekki gefa skýrustu myndina af stöðunni heldur miklu frekar hversu margir veikjast og hversu alvarlega veikir þeir eru. Komið sé í ljós að bólusetningarnar veiti afar góða vörn gegn veikindum.

„Við sjáum af þessari reynslu sem er komin núna að það eru fyrst og fremst þau sem eru óbólusett sem verða veik og þau verða veikari heldur en þau sem eru bólusett. Þannig að við sjáum það þarna eins og alls staðar annars staðar að bólusetningin er að gefa okkur gríðarlega mikla vörn sem hjálpar okkur til við að reyna eins og nokkur er kostur að halda samfélaginu gangandi.“

Áhyggjuefnið sé fyrst og fremst innviðir heilbrigðiskerfisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert