Tveir franskir ferðamenn virtu að vettugi viðvaranir um að ekki megi stíga á hraunið í Geldingadölum og grilluðu þar sykurpúða í gærkvöldi.
Voru þeir hinir rólegustu þegar meðfylgjandi ljósmyndir náðust af þeim og sátu ofan á hrauninu í mestu makindum.
Lögreglan og björgunarsveitir hafa ítrekað varað við því að ferðamenn fari upp á hraunið, enda lífshættulegt.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ferðamenn ganga á hrauninu. Skemmst er að minnast þess þegar ungt par sást þar ganga með ungabarn á bakinu í júlí síðastliðnum.