Sitjandi stjórn Landspítalans stendur ráðalaus frammi fyrir vanda spítalans, segir Theódór Skúli Sigurðsson, formaður Félags sjúkrahúslækna í samtali við mbl.is. Bendir hann meðal annars á að rekstur spítalans hafi fengið falleinkunn í skýrslu sænskra sérfræðinga. Þá hafi stjórnin einnig klúðrað álagsgreiðslum til heilbrigðisstarfsfólks sem stóð vaktina myrkrana á milli í upphafi kórónuveirufaraldursins.
Finnist engar langvarandi lausnir við vanda spítalans sem felst aðallega í skorti á fjármagni og leguplássi og mikilli manneklu sé mikil hætta á atgervisflótta úr stéttinni, segir hann.
Legupláss á Landspítalanum er með því lægsta sem þekkist í Evrópu og sýna tölur frá Hagstofunni það „svart á hvítu“ hvernig sú kúrva fellur, að sögn Theódórs.
„Fjöldi leguplássa hafa meira og minna staðið stað síðastliðin tíu ár. Í hlutfalli við stækkun þjóðar og fjölgun ferðamanna hefur ekkert verið bætt í,“ segir hann. „Þannig við erum alls ekki í stakk búin til að taka við auknu flæði í tengslum við stórslys, faraldra eða ferðamenn.“
Til að bæta gráu ofan á svart er mikil mannekla á spítalanum, sérstaklega hjá hjúkrunarfræðingum. Mjög vel er skilgreint hvað hver hjúkrunarfræðingur má sinna mörgum sjúklingum en allt of oft gerist það að of fáir hjúkrunarfræðingar þurfi að sinna of mörgum sjúklingum, með tilheyrandi álagi og kostnaði, að sögn Theódórs.
„Í sumar hafa komið upp krísur þar sem við höfum verið að reyna útskrifa fríska einstaklinga af gjörgæsludeildum en komum þeim ekki yfir á aðrar deildir vegna manneklu. Það eru til dæmi um það að flytja þurfti sjúkling yfir á 20 rúma deild þar sem einn hjúkrunarfræðingur var á vakt og restin af starfsfólkinu voru sjúkraliðar eða hjúkrunarnemar sem hafa misjafna reynslu,“ segir hann. „Það sama á við um gjörgæsluna. Almenna reglan er að það eigi að vera einn hjúkrunarfræðingur á hvern sjúkling þar. Við höfum hins vegar þurft að manna upp undir sjö rými þó rýmin séu bara fimm. Í morgun vorum við með 14 sjúklinga í 10 plássum. Þá þarf að manna þessi fjögur auka pláss sem vantar upp á með því að hringja inn fólk á aukavaktir sem kostar sinn skildinginn.“
Það getur hinsvegar oft reynst erfitt að fá mannskap til að taka aukavaktir á álagstímum, sérstaklega á sumrin, þar sem margir eru í fríum og aðrir nú þegar að vinna tvöfalt meira en þeir ættu að gera „Þá erum við kannski að keyra á lágmarks mannskap en að reyna sinna 140% rúmanýtingu,“ segir Theódór.
Mönnunarvandamálið á Landspítalanum er ekki nýtt af nálinni. Eftir álag síðasta árs gangi þó verr að fá fólk til að taka aukavaktir heldur en áður, að sögn Theódórs.
„Ég held að í skugga kórónuveirufaraldursins og í ljósi þess hve lengi ástandið er búið að vera erfitt, í allan vetur og allt síðasta ár, að fólk sé ekki eins tilbúið að hlaupa jafn hratt inn eins og áður. Það er ákveðin hætt á atgervisflótta og kulnun.“
Þá segir hann viðhorf stjórnenda til starfsfólks á gólfinu ekki til úrbóta. Þeir ætlist til að fólk hlaupi til við fyrsta kall en séu svo ekki tilbúnir að komast til móts við það.
„Ég get sérstaklega nefnt læknana. Það er mál sem fór í gang í aðdraganda sumars, á versta tíma sem hugsast gat, fyrir manneklu sumarsins, þá bregður spítalinn á það ráð að fella niður svokallaðar aukagreiðslur til lækna sem eru kallaðir inn á aukavaktir með stuttum fyrirvara. Þetta er kjarasamningsbundið af hálfu læknafélagsins og hefur verið hefð fyrir þessu í 20 ár. Læknafélagið kærði þetta til félagsdóms en sú niðurstaða liggur ekki fyrir fyrr en í haust. Þetta veldur því að ennþá erfiðara verður að fá lækna til að hlaupa í skarðið vegna veikinda eða annarra forfalla. Maður veltir því fyrir sér hvað liggur að baki þessu og hvað menn séu yfirhöfuð að hugsa. Þetta hleypir mjög illu blóði í fólk og ég veit að margir hafa hugsað sér til hreyfings í kjölfar þessara breytinga.“
Í apríl 2020 ákvað heilbrigðisráðherra að verja einum milljarði króna í sérstakar álagsgreiðslur til starfsfólks sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana sem starfaði þá undir miklu álagi vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Þessar álagsgreiðslur reyndust algert klúður, að sögn Theódórs.
„Það var fólk, sem fékk úthlutað þessum greiðslum, sem hafði aldrei sinnt Covid-sjúklingum. Þannig að þeir sem stukku til sem bakverðir og stóðu raunverulega í græna búningnum, daginn út og daginn inn, alla daga fengu aðeins nokkra þúsundkalla eftir skatt fyrir alla þá vinnu sem þeir höfðu raunverulega lagt á sig,“ segir hann. „Þetta var í fyrstu bylgju svo þú getur rétt ímyndað þér hversu vel gekk að fá bakverði í annarri og þriðju bylgju.“
Greiðslurnar voru þó leiðréttar að hluta en ekki í samræmi við þá vinnu sem starfsfólk hafði lagt á sig. Klappið sem starfsfólk bjóst við að fá á bakið fyrir vel unnin störf hafi aldrei komið, segir Theódór.
„Ég hef barist ötullega fyrir því, síðan að ég kom heim úr sérnámi fyrir fjórum árum síðan, að við fengjum fleiri gjörgæslupláss og í kórónuveirufaraldrinum hélt ég að við hefðum endanlega sannað mikilvægi þess að hafa góða og vel mannaða gjörgæslu. Það var því ansi köld vatnsgusa í andlitið þegar við fengum að heyra að við værum á leiðinni inn í sögulega lága mönnun á gjörgæslunni í upphafi sumars, eftir allt sem á undan hefur gengið. Þetta er rosalega slítandi fyrir lækna og hjúkrunarstarfsfólk að vera alltaf á hlaupum að slökkva elda en hafa aldrei á tilfinningunni að ná að klára það sem þarf að klára.“
Í febrúar 2020, gaf átakshópur heilbrigðisráðuneytisins út skýrslu þar sem gefnar eru fram ellefu tillögur til að leysa úr vanda bráðamóttökunnar á Landspítalanum. Rúmlega einu og hálfu ári síðar hefur enn ekkert gerst í þeim málum, að sögn Theódórs.
„Það er nákvæmlega ekkert búið að gera, ekki neitt. Þá var t.d. talað um að það þyrfti að fjölga svokölluðum hágæsluplássum á gjörgæslu en það hefur ekki verið gert. Það veit enginn hvernig á að leysa það, stýra því eða manna það,“ segir hann.
Skýrsla átakshópsins byggir á matsskýrslu erlendra sérfræðinga. Að mati Theódórs endurspeglar skýrslan þó illa álit umræddra sérfræðinga.
„Þar voru tveir sænskir sérfræðingar sem í raun gáfu yfirstjórn spítalans falleinkunn og það er vitnað í þá skýrslu aftarlega en það er eiginlega ekkert minnst á það sem þeir leggja til. Ef menn lesa skýrsluna frá Svíunum þá skilur maður af hverju það var lítið talað um hana því hún var bara einn áfellisdómur á rekstur spítalans. Þannig það var svona sérvalið hvað ætti að taka úr þeirri skýrslu yfir í skýrslu átakshópsins.“
Aðspurður segir Theódór að mörgu að huga þegar kemur að lausnum við vandanum sem spítalinn standi frammi fyrir. Hann segir starfsfólk þó vera orðið langþreytt á aðgerðarleysi stjórnvalda og vill hann sjálfur sjá varanlegar lausnir svo að hér verði hægt að byggja upp og viðhalda góðu heilbrigðiskerfi.
„Ég tel að það þurfi hugarfarsbreytingu og að stokka til í stjórn spítalans. Þeir sem hafa setið í stjórn síðastliðin 10 ár virðast alveg ráðalausir. Þessar aðgerðir sem hafa komið af og til í sambandi við krísur eru varla neitt til að tala um og tillögur að ofan engar. Það er fólkið á gólfinu sem er að reyna leysa málin, eins og alltaf. Ég vil fá einhverjar varanlegar lausnir svo við þurfum ekki að vera standa í því hvert einasta ár að kalla eftir meiri peningi. Því það er ekki mikið sem vantar upp á. Ég myndi vilja sjá stjórnvöld vinna raunverulega að því að setja 11% af vergri þjóðarframleiðslu í heilbrigðiskerfið sem hefur verið svelt síðan eftir hrun. Það var klárlega vilji þjóðarinnar í aðdraganda síðustu kosninga að meira fjármagn yrði sett í heilbrigðiskerfið,“ segir hann.
Þá sé mikilvægt að passa vel upp á mannauð spítalans og þekkinguna sem þar liggur enda burðarstoðin í starfseminni, að sögn Theódórs.
„Við erum með velmenntað og duglegt heilbrigðisstarfsfólk en það er verið að ganga ansi nærri því. Það þarf að fara passa aðeins upp á það. Að missa hjúkrunarfræðinga í önnur störf eða unga lækna erlendis eins og við höfum verið að gera er ekki gott. Þetta eru fyrirmyndirnar sem unga fólkið okkar, læknanemarnir horfa upp til. Þetta er fólkið sem á að byggja kerfið upp að nýju og við verðum að passa að missa það ekki frá okkur.“