Trúir ekki að forstjórinn eigi frumkvæðið

Stefán Hrafn Hagalín og Páll Matthíasson.
Stefán Hrafn Hagalín og Páll Matthíasson.

Mikilvægt er að upplýsa almenning um stöðu mála á Landspítalanum. Þetta segir Theódór Skúli Sigurðsson, formaður Félags sjúkrahúslækna, inntur eftir viðbrögðum við skilaboðum sem deildarstjóri samskiptadeildar spítalans sendi á stjórn­endur Land­­spítalans í gærkvöldi, þar sem stjórnendur á spítalanum voru beðnir um að svara ekki fyrirspurnum fjölmiðla.

Mikilvægt að upplýsa almenning

„Þetta er svolítið áhugavert orðalag sem hann notar í þessum skilaboðum,“ segir Theodór í samtali við mbl.is.

„Það má lesa milli línanna að það eigi kannski að einhvern veginn að hlífa fólki við áreiti fréttamanna en hingað til hef ég ekki orðið var við að fréttafólk sé að hringja að óþörfu. Svo er bara ofboðslega mikilvægt að upplýsa almenning um stöðu mála á spítalanum.“

Theódór Skúli Sigurðsson, formaður Félags sjúkrahúslækna.
Theódór Skúli Sigurðsson, formaður Félags sjúkrahúslækna. Ljósmynd/Aðsend

Ólíklega í samráði við Pál

Aðspurður telur Theodór ólíklegt að umrædd skilaboð hafi verið send í samráði við Pál Matthíasson, forstjóra Landspítalans.

„Þegar ég hef verið að skjóta á umræddan deildarstjóra þá hefur hann alltaf sagst vera að fylgja fyrirmælum og vinna vinnuna sína en ég veit ekkert um þetta mál. Ég bara trúi því ekki að forstjórinn eigi frumkvæðið að þessu. Mér finnst það allavega mjög ólíklegt.“

Svari ekki skrattakollum

„Ég vil því biðja ykk­ur að vísa alltaf og öll­um fyr­ir­spurn­um fjöl­miðla – sama hverj­um  á mig og ég út­deili þeim síðan aft­ur á þau ykk­ar sem eru til svara og laus hverju sinni,“ sagði deildarstjórinn Stefán Hrafn Hagalín í skilaboðum sínum til stjórnenda.

Þá sagði hann það einnig ágætis reglu að svara alls ekki bein­um sím­töl­um fjöl­miðla, sem kallaðir eru skratta­koll­ar í tölvupóst­in­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert