Vonbrigði að aðgerðaáætlanir hafi ekki leyst vanda

Bjarni segist ánægður með inngrip heilbrigðisráðherra.
Bjarni segist ánægður með inngrip heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir það vonbrigði að þær aðgerðaáætlanir sem stjórnvöld hafa gripið til undanfarin misseri hafi ekki leyst vandann á Landspítalanum.

„Það eru mjög mikil vonbrigði að hafa tekið þátt í að fjármagna aðgerðaáætlanir sem hafa síðan ekki leyst vandann,” sagði Bjarni að loknum ríkisstjórnarfundi í Ráðherraherrabústaðnum.

Í þessu samhengi nefnir hann skýrslu sem heilbrigðisráðuneytið birti í fyrra þar sem fram kom að stjórnvöld hefðu stóraukið fjármagn til Landspítalans.

„Við höfum líka verið að bæta mönnun og við höfum verið að gera breytingar á kjarasamningum til þess að breyta vaktaálagi á spítalanum en við fáum ekki viðbótarframleiðni,” sagði Bjarni.

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi.

Ánægður með inngripið

„Það er samspilið á milli ólíkra eininga í heilbrigðiskerfinu sem virðist vera vandamál. Þetta er keðja og ef einn hlekkurinn er að bresta þá heldur keðjan ekki. Við þurfum að finna þessa veiku hlekki í heilbrigðiskerfinu hjá okkur,” bætti hann við og kvaðst telja að skipulagsbreytingar og rekstrarákvarðanir umfram það endilega að tryggja alltaf viðbótarfjármagn, gæti leyst ýmsan vanda.

Það hafi heilbrigðisráðherra einmitt kynnt til sögunnar á ríkisstjórnarfundinum og sagðist hann ánægður með inngrip Svandísar Svavarsdóttur.

Vill útskýringar frá lykilstjórnendum 

Spurður hvort hann efist um stjórnendur Landspítalans í ljósi þess að aukið fjármagn til stjórnvalda hafi ekki leyst vandann á spítalanum kvaðst hann ekki hafa komið að þeirri niðurstöðu.

„En mér finnst að lykilstjórnendur í heilbrigðiskerfinu…við hljótum að gera tilkall til þess að þeir leggi eitthvað að mörkum og geri grein fyrir því hvers vegna aðgerðaráætlanir til þess að leysa þann vanda sem við erum að horfast í augu við núna hafi ekki gengið eftir,” sagði Bjarni.

Ljósmynd/Landspítalinn

Bólusetningar heppnast frábærlega 

Hann sagði bólusetningarnar hérlendis hafa heppnast frábærlega og að langflestir sem hefðu þegið bólusetningu væru komnir í verulegt skjól fyrir alvarlegum veikindum. Núna séum við aftur á móti að horfa upp á lítinn viðnámsþrótt í heilbrigðiskerfinu, meðal annars út af fráflæðisvanda.

„Nú hef ég komið að því að tryggja fjármögnun á hverju verkefninu á fætur öðru til að leysa fráflæðisvandann. Síðast var kynnt aðgerðaáætlun í janúar 2020. Við þurfum að rifja upp hvað hefur gengið vel frá því sem þar var ákveðið og hvað hefur ekki gengið eftir,” sagði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert