Landhelgisgæslunni hefur borist tilkynning um bólstra eða stróka sem áttu að hafa sést yfir hafinu vestur af Krýsuvíkurbergi. Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar í samtali við mbl.is.
„Þá var ákveðið að senda varðskipið Þór til þess að kanna hvað þarna væri á svæðinu,“ segir Ásgeir. Tilkynningin barst um klukkan átta í kvöld.
Varðskipið Þór er statt suður af Reykjanesskaga og siglir vestur svo áhöfnin geti metið aðstæður. Vísir greindi fyrst frá.
Ekkert sést á mælum Veðurstofunnar, samkvæmt upplýsingum þaðan. Hafa vísindamenn á vakt kannað mælingar í leit að óróa en ekki fundið.
Otti Rafn Sigmarsson, björgunarsveitarmaður í Þorbirni í Grindavík, segir sveitina ekki hafa verið kallaða út. Kveðst hann hafa keyrt Suðurstrandarveginn fyrir um klukkustund og ekkert séð þá, nema gufubólstrana af Reykjanesi.
„Þeir stóðu bara beint upp, svo þeir gætu átt sök að máli,“ segir Otti í samtali við mbl.is.