Kalla þurfti til lögreglu eftir að mikil örtröð myndaðist þegar farþegar héldu niður í komusal Leifsstöðvar í dag. Jón Gnarr, leikari, grínisti og fyrrverandi borgarstjóri, er í flugstöðinni og lýsti aðstæðum í samtali við mbl.is.
„Þetta er það rosalegasta sem ég hef séð, eins og að fara á úrslitaleik hjá United og Liverpool; fólk orðið frústrerað og byrjað að ryðjast og rjúfa þessi bönd,“ segir Jón.
Örtröðin var svo mikil að farþegar tóku að rífa niður borða í von um að koma sér úr mannþrönginni, en þá hlupu starfsmenn til með nýja borða. Loks skarst lögreglan í leikinn og leiðbeindi farþegum svo hægt væri að mynda einhvers konar röð.
„Þetta er bara alltof mikið af fólki, alltof fáir að vinna. Svo við vorum bara svolítið sett í síldartunnuna,“ segir Jón.
Að sögn Jóns var farþegum hleypt áfram í hollum og söfnuðust svo margir saman að nálægðarmörkin heyrðu sögunni til.
„Það safnaðist saman meira og meira fólk þangað til þetta var bara maður við mann. Fólk var byrjað að losa böndin. Svo sat maður fastur í einhverju sem maður hélt að væri einhver röð. Þetta var algjör sturlun,“ segir Jón.
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem örtröð myndast í Leifsstöð en í vikunni sagði Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, í samtali við mbl.is að ekki væri hægt að gera neitt til þess að bregðast við mannþrönginni á flugvellinum.
„Þetta er bara það allra óþægilegasta sem ég hef lent í í þessu Covid-dæmi. Svo ertu bara settur í einhverja síldartunnu og í aðstæðum þar sem fólk þarf að sanna að það sé bólusett,“ segir Jón og bætir við að hann hafi verið í Belgíu og Hollandi:
„Þar urðum við ekki vitni að neinu í líkingu við þetta.“