„Tekur tíma að fara yfir vottorðin“

Miklar biðraðir mynduðust á Keflavíkurflugvelli í dag.
Miklar biðraðir mynduðust á Keflavíkurflugvelli í dag. Ljósmynd/Hreiðar Sigfússon

„Það tekur tíma að fara yfir vottorðin, það þarf fólk til að fara yfir alla pappíra áður en farþegum er hleypt inn í landið,“ segir Grettir Gautason, staðgengill upplýsingafulltrúa Isavia, um örtröðina á Keflavíkurflugvelli í dag.

Hann segir að fólki hafi verið bent á að bíða á annarri hæð flugstöðvarinnar, áður en farið er niður í fríhöfnina, til þess að koma í veg fyrir hópamyndun þar sem gögn á borð við bólusetningarvottorð og PCR-próf eru yfirfarin af lögreglu og heilbrigðisyfirvöldum.

Miklar raðir hafa myndast á álagstímum á flugvellinum, sem torveldar farþegum að virða eins metra nálægðarmörk. Þá er um að ræða annars vegar raðir farþega sem eru að koma til landsins og þurfa að sýna gögn sín í komusal, og hins vegar raðir þeirra sem innrita sig í flug í brottfararsal.

Verið að vinna að rafrænum lausnum

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair Group, segir fyrirtækið meðvitað um ástandið sem hefur verið að skapast á flugvellinum. Handvirk innritun geri það að verkum að hlutirnir gangi hægar fyrir sig. 

„Vegna þeirra krafna sem eru settar á flugrekendur í tengslum við sóttvarnareglur, sem eru mismunandi eftir löndum, þurfum við að skoða gögn hjá hverjum og einum. Innritunin þarf að vera handvirk vegna þessa. Það er fullmannað og við reynum að nota eins mörg innritunarborð og kostur er á, en svona verður ástandið því miður á álagstímum,“ segir hún. 

Bætir Ásdís við að verið sé nú að kanna hvernig hægt sé að gera þjónustuna rafræna til þess að flýta fyrir.

„Það er verið að vinna að tæknilausnum þar sem er hægt að stefna að því að heilsutengdum ferðagögnum megi skila inn rafrænt fyrir brottför. Það er verið að vinna að slíkum lausnum, en þær eru ekki til ennþá. Við erum að takast á við breyttar aðstæður,“ segir hún.

Ekki væri hægt að koma í veg fyrir mannþröngina

Örtröðin sem mbl.is greindi frá í dag var sem fyrr segir ekki í innritunarsal flugvallarins heldur á leið í komusal, þar sem lögreglan og heilsugæslan fara yfir gögn á borð við PCR-próf og bólusetningarvottorð.

Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, sagði í samtali við mbl.is í vikunni að ekki væri hægt að koma í veg fyrir mannþröngina en hvorki náðist í hann né Arngrím Gunnarsson aðstoðaryfirlögregluþjón á Keflavíkurflugvelli við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert