Bandaríkjamönnum er nú ráðlagt að ferðast ekki til Íslands eftir að Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) hækkaði hættumat sitt. Landið er nú á hæsta hættustigi stofnunarinnar, en stigin eru fjögur.
Þeir sem þurfa að ferðast til landa sem eru á þessu hættustigi eiga að vera fullbólusettir samkvæmt fyrirmælum stofnunarinnar.
Sóttvarnastofnunin uppfærði listann í dag en auk Íslands bættust sjö ríki við, meðal annars Frakkland og Ísrael. Lönd sem eru á listanum hafa nýgengi smita yfir 500 af 100.000 íbúum á undanförnum 28 dögum.