Erla nýr ritstjóri Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar

Erla Björg Gunnarsdóttir.
Erla Björg Gunnarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Erla Björg Gunnarsdóttir fréttamaður hefur verið ráðin ritstjóri fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis. Tekur hún þá við starfi Þóris Guðmundssonar. Kolbeinn Tumi Daðason, fréttastjóri Vísis, verður fréttastjóri allra þriggja miðla.

Þetta kemur fram í frétt Vísis.

Þar segir að Erla Björg hafi verið fréttamaður Stöðvar 2 síðustu fimm ár, þar af tvö sem fréttastjóri. Þá hefur hún verið umsjónarmaður fréttaskýringarþáttarins Kompáss og hlaut blaðamannaverðlaun fyrir störf sín á þeim vettvangi.

„Það er mikill heiður að taka við góðu starfi Þóris og leiða þann öfluga hóp sem starfar á fréttastofunni næstu skref. Á fréttstofunni ríkir einstök samheldni, vinnugleði og kraftur. Það er starfsandi sem býður upp á endalaus tækifæri og ég hlakka til að grípa þau,“ er haft eftir Erlu í frétt Vísis.

Erla er með BA-próf í stjórnmálafræði auk diplóma-gráðu í blaða- og fréttamennsku frá Háskóla Ísland. Þá er hún með meistaragráðu í menningar- og fagurfræðum frá Háskólanum í Árósum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert