Fjöldinn vex hraðar en tæknin

Mikil örtröð á Keflavíkurflugvelli.
Mikil örtröð á Keflavíkurflugvelli. Ljósmynd/Aðsend

Fjöldi ferðamanna í Leifsstöð vex hraðar en tæknilausnir sem þarf að þróa, til að mynda til þess að skoða bólusetningarvottorð. Það hægir á ferlinu þegar farþegar eru ekki með evrópskt bólusetningarvottorð en vottorðin frá Bretlandi og Bandaríkjunum eru handskrifuð.

Þetta segir Ingi Steinar Ingason, sviðsstjóri miðstöðvar rafrænna heilbrigðislausna hjá embætti landlæknis, í samtali við Morgunblaðið. „Endanlega markmiðið er að flugfélögin staðfesti þetta áður en fólk fer um borð í vélina og það verði látið duga,“ segir hann.

Miklar raðir og mannþröng mynduðust í flugstöðinni um helgina við komusalinn í Leifstöð, þar sem komufarþegar biðu eftir staðfestingu á bólusetningarvottorðum. Um þúsund farþegar á dag koma með bólusetningarvottorð með svokallaðri QR-kóðun sem einungis tekur nokkrar sekúndur að skanna inn en málin vandast þegar farþegar koma með vottorð af öðru tagi.

„Fólk er núna í stórum straumum að koma með alls konar pappírssnepla sem þarf að rýna í, bólusetningarvottorðin frá Bretlandi og Bandaríkjunum eru til dæmis öll handskrifuð. Við munum reyna að þjóna farþegum með þessu tölvukerfi eins og hægt er en húsnæðið í Leifsstöð er ákveðinn flöskuháls líka,“ segir Ingi Steinar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert