Bólusetning viðkvæmra hópa með örvunarskömmtum gegn kórónuveirunni mun hefjast að einhverju leyti í næstu viku. Þá verða bólusettir íbúar á hjúkrunarheimilum og síðan þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma, yfir sextugt og þeir sem eru ónæmisbældir.
Þegar bólusetningu barna lýkur í lok ágúst mun bólusetning þessara fyrrnefndu hópa hefjast af fullum krafti.
Þetta segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, við mbl.is.
„Þetta er alveg slatti af fólki,“ segir hún um viðkvæma hópa.
„Við munum byrja á hjúkrunarheimilunum og munum byrja á því hugsanlega eitthvað í næstu viku en aðallega þegar börnin eru búin, þarna 25. og 26. ágúst. Svo eru þarna hópar sem er ekki alveg búið að ákveða hvernig staðið verður að bólusetningu fyrir, það eru þá þeir sem eru eldri en áttræðir og svo eru það ónæmisbældir líka sem eru ákveðinn hópur og svo eru líka þeir sem eru eldri en sextugir.“
Þið eruð sem sagt að miða við aldursbilið 60+ þegar kemur að örvunarskömmtum?
„Ja, sko, við ætlum allavega að byrja á hjúkrunarheimilunum, klára þau og svo sjáum við næstu skref í framhaldi af því.“
Þegar bólusett verður í Laugardalshöll í næstu viku verða þeir boðaðir sem fengið hafa bóluefni Janssen, um 32 þúsund manns, og verður bólusetningunni skipt niður á fjóra daga. Fá þeir annaðhvort bóluefni Pfizer eða Moderna.
Þá verða um 10 þúsund börn á aldrinum 12-15 ára bólusett dagana 23. og 24. ágúst. Þar á Ragnheiður einungis við börn á höfuðborgarsvæðinu en um 7-8 þúsund börnum á landsbyggðinni verður einnig boðin bólusetning. Börn á þessum aldri verða að koma í fylgd með fullorðnum í bólusetningu.
Ragnheiður segir að líklega verði ekki erfitt að manna þær stöður sem þarf þegar starfsemi bólusetninga færist í Laugardalshöllina að nýju, flestir verði þá komnir úr sumarfríi. Þó segir hún að starfsemi Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu raskist óhjákvæmilega eitthvað þar sem mannskapur þaðan sé fenginn til bólusetninga í Laugardalshöll.