Komin áætlun um þriðja skammt fyrir viðkvæma hópa

Byrjað verður á þeim sem eru áttræðir eða eldri og …
Byrjað verður á þeim sem eru áttræðir eða eldri og búa sjálfstætt. Þá verða aðrir ónæmisbældir bólusettir og endað á fólki á aldrinum sextíu til sjötíu og níu ára mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrir lok septembermánaðar verður búið að endurbólusetja Janssen-þega, bólusetja börn á aldrinum tólf til fimmtán ára og gefa viðkvæmum hópum, öldruðum og ónæmisbældum þriðja skammtinn af bóluefni. 

Þetta staðfestir Kamilla S. Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnarlæknis, í samtali við mbl.is. Hún skilaði inn minnisblaði til ráðuneytisins fyrir helgi þar sem fram kom áætlun sóttvarnayfirvalda um bólusetningu þessara hópa.

„Við höfum í forgangi að fullbólusetja hópa áður en við gefum þriðja skammtinn,“ segir hún og á þá við örvunarskammtana sem Janssen-þegar munu fá í næstu viku og grunnbólusetningu barna á aldrinum tólf til fimmtán ára. 

Börnin fyrst, svo aldraðir og ónæmisbældir

Það tók tíma að móta skipulag í tengslum við síðarnefnda hópinn. „Það þarf að koma upplýsingum til allra sem málið varðar, börn eiga að geta haft skoðun á því hvað er gert þótt þau þurfi samþykki foreldra til að þiggja bólusetningu.“

Það þurfti að móta upplýsingar fyrir ungmenni þar sem fram kæmu rök fyrir bólusetningunum og hvaða aukaverkanir kynnu að fylgja í kjölfarið.

Þegar búið verður að bólsetja börnin verður ráðist í bólusetningar á ónæmisbældum og öldruðum. Byrjað verður á þeim sem eru áttræðir eða eldri og búa sjálfstætt. Þá verða aðrir ónæmisbældir bólusettir og endað á fólki á aldrinum sextíu til sjötíu og níu ára, sem býr sjálfstætt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka