Minnir á væntanlegt Delta-bóluefni

Kamilla S. Jósefsdóttir staðgengill sóttvarnarlæknis
Kamilla S. Jósefsdóttir staðgengill sóttvarnarlæknis Ljósmynd/Almannavarnir

Kamilla S. Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnarlæknis, segir að erfitt sé að meta á þessari stundu hvort staða smita í samfélaginu sé orðin stöðug. Ekki megi gleyma væntanlegu Delta-bóluefni í umræðunni um hjarðónæmi. Núna séu greiningar í gangi en að þeim loknum verði hægt ræða hvort láta eigi veiruna ganga yfir. 

„Það greinist minna um helgar og svo vex það fram í vikuna en dettur niður aftur,“ segir Kamilla. Það kunni að stýrast af framboði á sýnatöku eða þá að um sé að ræða merki þess að ástandið í samfélaginu sé að verða stöðugt. 

Hlutfall jákvæðra smita hefur verið sæmilega stöðugt og það bendir til þess að komið sé á ákveðið jafnvægi. Kamilla segir að það þurfi þó að túlka varlega því ekki sé vitað um hlutfall smitaðra sem fara í sýnatöku þótt vitað sé um hlutfall skimaðra sem greinast.

Enn sé mikilvægt að fólk fari í sýnatöku ef það finnur fyrir einkennum eða hefur orðið útsett fyrir smiti, sérstaklega þeir sem umgangast viðkvæma hópa. 

Megi ekki gleyma væntanlegu Delta-bóluefni

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að hjarðónæmi muni ekki nást nema smit nái ákveðinni útbreiðslu í samfélaginu, það þurfi að leyfa því að gerast samhliða því að heilbrigðiskerfið sé verndað.

Er þetta nokkuð samhljóða því sem Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði í viðtalsþættinum Sprengisandi í gær, þótt hann hafi talað um að tvær leiðir væru færar til að ná hjarðónæmi og önnur þeirra væri að bólusetja. 

Kamilla segist ekki sammála því að besta leiðin til að ná hjarðónæmi sé að láta smitin ríða yfir þjóðina. Það megi ekki gleyma því að bóluefni við Delta-afbrigði veirunnar sé í þróun. Bindur hún vonir um að það berist til Íslands á næsta ári. 

„Við getum mögulega náð hjarðónæmi gegn Delta-veirunni, með Delta-bóluefni,“ segir Kamilla. Ef það bóluefni kemst nógu hratt í dreifingu verður, að mati Kamillu, hægt að hindra það að ný afbrigði veirunnar spretti upp hér og þar. 

Litið til þess hve margir séu enn óbólusettir eða ólíklegir til að svara bólusetningu, telur Kamilla að ef Delta-veiran væri látin ganga yfir núna til þess að ná hjarðónæmi þyrftu þeir sem ekki eru bólusettir að greiða fórnarkostnað hinna. „Það er ekki endilega besta leiðin.“ 

Þá verði hægt að láta veiruna „gossa“

Nú eru sóttvarnaryfirvöld að afla sér upplýsinga um hvort við séum mögulega komin þangað nú þegar að geta látið hjarðónæmi nást með smitum, að sögn Kamillu.

Hún segir að verið sé að fara yfir þau smit sem greinst hafa í þessari bylgju og fá svör við ákveðnum spurningum. Þá helst hvaða áhrif bólusetningar hafa á einstaklinga í áhættuhópum, hversu góða vörn þær veiti þeim gegn alvarlegum veikindum og langvarandi einkennum.

„Við teljum að vörnin sé mikil og er það bæði tilfinning okkar, læknanna í hringiðunni á Landspítalanum og í samræmi við gögn erlendis frá,“ segir Kamilla og sóttvarnaryfirvöld vinni nú að sinni eigin greiningu á þessu.

Niðurstöður ættu vonandi að liggja fyrir innan tveggja vikna. „Þá verða mögulega komin sterkari rök fyrir því að láta þetta gossa,“ segir Kamilla. Það yrði þó með þeim takmörkunum að enn verði þeir sem eru í áhættuhóp verndaðir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert