Nýtt op við eldgosið vekur athygli

Á vefmyndavél mbl.is. má sjá hvernig nýtt op hefur myndast …
Á vefmyndavél mbl.is. má sjá hvernig nýtt op hefur myndast við gígbarminn.

Gosórói við eldgosið í Geldingadölum virðist vera að taka sig upp að nýju eftir að hafa legið niðri frá því um 15:30 í gær. Þá hefur nýtt op sem myndast hefur við gosið vakið athygli fólks en opið má sjá á myndefni frá vefmyndavélum á svæðinu. Of snemmt er að segja til um það hvort þarna sé nýr gígur að myndast, að sögn Bjarka Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

„Það er erfitt að segja til um það út frá þessu myndefni frá vefmyndavélunum en þar sem þetta er svona nálægt gígnum sjálfum þá lítur út fyrir að þetta sé bara örlítið gat út frá honum. Það er alla vega eitthvað að malla þarna í þessu nýja opi á sama tíma og það mallar í stóra gígnum. Það lítur út fyrir að hraunið renni í átt að Geldingadölum og það er púlsavirkni í þessu nýja gati,“ segir Bjarki í samtali við mbl.is.

Þá segir hann erfitt að fullyrða um það hvort þarna sé um nýjan gíg að ræða fyrr en hægt verður að mynda svæðið ofan frá. 

„Það er erfitt að segja til um það fyrr en við fáum almennilegar loftmyndir af svæðinu en það hefur ekki hefur verið hægt að mynda svæðið nýlega vegna veðurs. Það er þó einhver púlsavirkni í þessu nýja gati.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert