Spítalinn ráði við næstu bylgju

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, telur að spítalinn hafi bolmagn til þess að takast á við þá bylgju faraldursins sem blasir við að því gefnu að spálíkan spítalans standist. Svartsýnisspá gerir ráð fyrir í mesta lagi 30 spítalainnlögnum í lok mánaðarins en sex gjörgæsluinnlögnum.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í viðtali á Bylgjunni í gær að tímabært væri að reyna að ná fram hjarðónæmi gegn veirunni. Hann hygðist ekki leggja til harðar takmarkanir innanlands vegna faraldursins.

„Við í sjálfu sér fylgjum fyrst og fremst ráðleggingum og línu sóttvarnalæknis. Vissulega hafa þær aðeins breyst frá einum tíma til annars en það er eðlilegt. Eina leiðin til þess að nálgast þetta verkefni er að taka ákvarðanir byggðar á bestu upplýsingum sem fást á hverjum tíma og hafa síðan auðmýkt til að breyta þeim ráðleggingum þegar nýjar upplýsingar koma upp á yfirborðið,“ segir Páll í samtali við Morgunblaðið.

Óvissa vegna delta-afbrigðis

Hefur spítalinn bolmagn til þess að takast á við óbreytta stöðu hvað varðar takmarkanir?

„Við byggjum á spálíkani sem mun batna, eftir því sem frekari upplýsingar fást um bylgjuna. Við teljum að hægt sé að takast á við [bylgjuna sem spáð er] og þá bæði með því að okkar starfsfólk bæti á sig viðbótarvinnu og álagi en auk þess fáum við hjálp frá öðrum heilbrigðisstofnunum. Með því ætti þetta að hafast,“ segir hann.

Aftur á móti sé uppi ákveðin óvissa vegna delta-afbrigðisins. Páll segir það valda áhyggjum ef sóttvarnaráðstafanir verði minni auk þess sem afbrigðið sé meira smitandi en önnur afbrigði.

„En það er hins vegar jákvætt hvað það eru margir bólusettir. Við erum í rauninni að fylgjast með dag frá degi og sjá hvernig fer; hvort bylgjan verði verri en spálíkanið kveður á um eða betri. Við þurfum þegar að bregðast við álaginu með því að kalla fólk úr sumarfríum, sem er óyndisúrræði.“

Takmarkið að ná hjarðónæmi

Morgunblaðið og mbl.is náðu ekki tali af Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni eftir ummæli sem hann lét falla á Bylgjunni í gærmorgun. Þar sagði hann að nú væri takmarkið ekki að útrýma veirunni eða losa hana úr samfélaginu en ná þyrfti hjarðónæmi í samfélaginu með því að leyfa kórónuveirunni að ganga án þess þó að spítalakerfið riðaði til falls.

„Það eru bara tvær leiðir til þess að koma upp hjarðónæmi; láta sýkinguna ganga yfir sjálfa eða ná því með bólusetningu,“ sagði hann. Dreifing smita eftir að mikill meirihluti landsmanna var bólusettur hefði verið meiri en hann bjóst við, þótt hafa verði hugfast að bólusetningin komi í veg fyrir alvarleg veikindi.

„Ég hefði gjarnan viljað að hún væri betri í að koma í veg fyrir smit. Staðan er bara þannig núna að við þurfum að stokka spilin og leggja upp ný plön,“ sagði Þórólfur.

Í kvöldfréttum ríkisútvarpsins sagði hann að takmarkið væri að ná hjarðónæmi á einn eða annan máta. Talaði hann aftur um að tveir kostir væru til að ná hjarðónæmi, en ólíkt viðtalinu fyrr um daginn fór hann einungis út í annan þeirra; bólusetningar.

Lengra viðtal við Pál má lesa í Morgunblaði dagsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert