„Það næst ekkert hjarðónæmi með bólusetningu“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. AFP

„Það sem Þórólfur [Guðnason sóttvarnalæknir] sagði á Sprengisandi er nákvæmlega það sem ég er búinn að vera að segja síðastliðnar tvær vikur,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. 

Bólusetningin ver ekki nægilega vel gegn því að fólk smitist en hún ver gegn alvarlegum veikindum. Þetta þýðir að samfélagið kemur til með að fá hverja bylgjuna á fætur annarri uns 75 til 80 prósent þjóðarinnar hafa smitast af veirunni, að mati Kára. 

„Það næst ekkert hjarðónæmi með bólusetningu.“ Því til stuðnings bendir Kári á að bólusettir einstaklingar séu að smitast aftur.

„Hann bara ruglaðist“

Í viðtalsþættinum Sprengisandi í gær sagði Þórólfur að tvær leiðir væru færar til þess að koma upp hjarðónæmi, láta sýkinguna ganga yfir sjálfa eða ná því með bólusetningum.

Vakti þetta mikil viðbrögð og kom Þórólfur því aftur fram, í viðtali við fréttastofu rík­is­út­varps­ins og sagði takmarkið vera að ná hjarðónæmi á einn eða annan máta. „Annaðhvort með bólu­setn­ingu og við höf­um reynt það. Helm­ing­ur­inn af þeim sem eru bólu­sett­ir er ónæmur. Þannig að við náum hjarðónæmi hjá þeim.

„Hann bara ruglaðist og það getur komið fyrir okkur öll,“ segir Kári um orð Þórólfs. „Það er engin önnur leið til að ná hjarðónæmi heldur en að stór hluti þjóðarinnar smitist, það næst ekki með bólusetningu eins og hann er að segja.

Hann lét líka hafa eftir sér að helmingur bólusettra væri varinn með bólusetningu og kominn með hjarðónæmi. Þetta er bara bull, hjarðónæmi lýtur að þjóðinni allri, ekki bara hluta hennar.“

Hjarðónæmi á einu til tveimur árum

Kári segir að hjarðónæmi muni ekki nást fyrr en smitin eru búin að dreifast út víða. Verkefni sóttvarnayfirvalda sé að sjá til þess að engin af þeim bylgjum sem eiga eftir að ríða yfir, verði svo stór að hún kæfi spítalann og sligi heilbrigðiskerfið.

Hjarðónæmi mun nást á einu til tveimur árum að mati Kára. „Við horfumst í augu við breytt líf næstu tvö árin sem mun koma til með að hafa meiriháttar áhrif á okkar samfélag.“

Smittölur eru minni ógn núna en þær voru áður í ljósi þess að tífalt lægra hlutfall smitaðra lendir á heilbrigðiskerfinu eftir bólusetningu, að sögn Kára. 

„Við viljum dansa á þessari ósýnilegu línu þannig að við séum með nægilega mörg smit til að ná ákveðinni dreifingu en ekki svo mörg að þau bugi heilbrigðiskerfið.“ Ef gripið væri til mjög harðra takmarkana gæti það lengt þann tíma sem tekur að ná hjarðónæmi, að sögn Kára. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert