Þyrla Norðurflugs kom gönguhópi til bjargar

Friðland að Fjallabaki.
Friðland að Fjallabaki. mbl.is/RAX

„Þegar það koma upp svona mörg erfið útköll á stuttum tíma er ómetanlegt að það séu fleiri aðilar tilbúnir að stökkva inn í. Það skipti rosalega miklu máli í þessu tilfelli.

Þetta segir einstaklingur, sem vill ekki láta nafns síns getið, sem var ásamt gönguhópi við Ljósá að Fjallabaki þegar einn í hópnum ökklabrotnaði alvarlega.

Í gær var greint frá því að björg­un­ar­sveit­ir á Suður-, Vest­ur- og Aust­ur­landi hefðu all­ar verið kallaðar út á innan við hálftíma til að sinna erfiðum út­köll­um. Meðal útkallanna var banaslys í Súl­um í Stöðvarf­irði þar sem þyrla Landhelgisgæslunnar var að störfum. 

Við Ljósá á Suðurlandi var á sama tíma fjallahópur á göngu um svæðið, þegar kona slasaðist á ökkla.

„Slysið varð í gili þar sem er ómögulegt að komast að á vélknúnum ökutækjum. Þannig að nánast ómögulegt var fyrir björgunarsveitir að komast að svæðinu og hefði tekið mjög langan tíma.“

Sjúkrabörur úr göngustöfum og útivistarflíkum

Hópurinn áttaði sig því fljótlega á því að aðstoðar þyrlu væri þörf, en eins og áður sagði var þyrla Landhelgisgæslunnar að störfum á Austurlandi. Hópurinn fór því í að koma slasaða einstaklingnum á aðgengilegri stað með því að búa til sjúkrabörur úr göngustöfum og útivistarflíkum. 

„Það var mikið þrekvirki sem hópurinn vann við að koma einstaklingum upp úr gilinu. Ég held að það hefði ekki gengið upp ef ekki væri um að ræða þaulreyndan hóp.“

Þegar hópurinn komst upp úr gilinu sáu þau þyrlur á flugi. 

„Sú hugmynd kemur upp að prufa að hafa samband við Norðurflug.“

Hópurinn vissi þó ekki að um var að ræða þyrlu frá Norðurflugi heldur einstök tilviljun að þau skyldu hringja í framkvæmdastjóra fyrirtækisins sem var þá við kvöldverð með fjölskyldunni en fór strax í að reyna að bjarga málum en framleiðslufyrirtæki hafði þyrluna að láni fyrir kvikmyndaverkefni. 

Göngugarpurinn orðinn náfölur og lúinn

„Þeir tóku ótrúlega vel í þessa beiðni og voru mjög snöggir á staðinn. Það er ekkert sjálfsagt þegar verið er að leigja þyrlu til viðskiptavinar að stokkið sé til í svona verkefni. Þyrlan náði í slasaða einstaklinginn eftir að það var búið að flytja hana upp úr gilinu. Þyrlan kom henni svo til björgunarsveitanna sem voru töluvert lengra frá og höfðu beðið átekta. Það var alveg magnað hvað það skipti miklu máli að þessir aðilar gátu stigið inn í þegar þyrla Landhelgisgæslunnar var ekki til taks. Þau eiga allt lof skilið fyrir aðstoðina.“ 

Slysið varð um fjögurleytið og þyrlan var komin á vettvang um sjöleytið. Ljóst er að björgunin hefði tekið mun lengri tíma ef ekki hefði verið fyrir þyrlu Norðurflugs en slasaði göngugarpurinn var orðinn ansi lúinn og náfölur eftir bröltið að sögn hópsins en um alvarlegt ökklabrot er að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert