Barnabarn manns, sem dansk-íslenski rithöfundurinn Guðmundur Kamban er sagður hafa svikið í hendur nasista, vill að minningarskjöldurinn um hann í Kaupmannahöfn verði tekinn niður. Fjallað var um málið á heimasíðu Berlingske í kvöld.
Skjöldurinn sem um ræðir var settur upp á Uppsalagötu 20 í Kaupmannahöfn hinn 27. júní 1990 og stóðu hjónin Helgi Skúlason og Helga Bachmann að uppsetningu hans, en móðir Helgu var systir Guðmundar.
Í grein Berlingske er fjallað um ævi og störf Guðmundar, þar á meðal þær frásagnir sem ritaðar hafa verið af Íslendingum um hvað hann aðhafðist á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Þar er m.a. vísað til bókar Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar fornleifafræðings frá árinu 2005, Medaljens bagside, en þar greindi Vilhjálmur Örn frá því að Kamban hefði starfað náið með hernámsliði nasista í Danmörku.
Greindi Vilhjálmur þar jafnframt frá máli Jacobs Thalmay, en hann var andspyrnuliði af gyðingaættum, en Thalmay hafði einnig verið nágranni Guðmundar. Mun Thalmay hafa verið í dulargervi í höfuðstöðvum Gestapo í Kaupmannahöfn þegar Kamban var þar á ferðinni, og bar hann kennsl á Thalmay.
Var Thalmay handtekinn þegar í stað og sendur í fangabúðir í Danmörku, áður en hann var svo fluttur til Sachsenhausen-búðanna í janúar 1944. Í ágúst sama ár var Thalmay svo fluttur til Auschwitz. Þaðan var hann svo neyddur í helgöngu til Mauthausen-búðanna, þar sem hann lést 9. mars 1945, tæpum tveimur mánuðum fyrir stríðslok í Evrópu. Vilhjálmur Örn ritaði einnig um mál Thalmay á vefsíðu sína árið 2013.
Í grein Berlingske er rætt við Charlotte Thalmay, barnabarn andspyrnuliðans, en hún segir það hafa sært sig að frétta af minningarskildinum um Guðmund Kamban, þar sem hann hafi verið virkur nasisti sem benti Þjóðverjum á að afi hennar væri gyðingur.
Spyr Charlotte hvort menn sem hafi svikið Danmörku í tryggðum eigi heiður skilið, og þá skipti litlu hvort þeir hafi verið góðir rithöfundar. Spurð hvort ekki væri hægt að leysa málið með því að setja einhvers konar neðanmálsgrein við minningarskjöldinn segir Charlotte að það væri kannski hægt, en spyr hvernig ætti að orða þá setningu, þar sem erfitt væri að finna rétt orðalag.