Andlát: Jónas Þórir Þórisson

Jónas Þórir Þórisson, kristniboði og fv. framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, lést á Landspítalanum að kvöldi sunnudagsins 8. ágúst, 77 ára að aldri.

Jónas fæddist 7. ágúst 1944 á Akureyri, einn fjögurra sona Jónasar Þóris Björnssonar vélfræðings og Huldu Stefánsdóttur húsfreyju.

Jónas ólst upp á Akureyri og lauk þaðan gagnfræðaprófi árið 1961. Hann tók kennarapróf frá Kennaraháskóla Íslands 1971 og stundaði nám við Biblíu- og kristniboðsskólann Fjellhaug í Osló árin 1966-67. Ungur að árum vann Jónas m.a. sem skrifstofumaður og bókari hjá Bílasölu Akureyrar og starfsmaður hjá Útvegsbanka Íslands.

Greint var frá andláti Jónasar á vef Sambands íslenskra kristniboðsfélaga, SÍK, í gær. Þar kemur m.a. fram að hann hafi starfað sem kristniboði í Eþíópíu ásamt eftirlifandi eiginkonu sinni, Ingibjörgu Ingvarsdóttur, á árunum 1973-1987.

Sinnti hann þar m.a. boðun, fræðslu, hjálpar- og neyðarstarfi í Konsó og fjármálastjórnun á skrifstofu kirkjunnar, Mekane Yesu. „Aðstæður voru oft erfiðar vegna hungursneyðar og byltingar sem gerð var þegar keisaranum var steypt af stóli og marxískri hugmyndafræði komið á. Á sama tíma óx starfið og efldist,“ segir m.a. á vef SÍK.

Hér á landi gegndi Jónas starfi skrifstofustjóra aðalskrifstofu KFUM og KFUK í nokkur ár en var síðan ráðinn framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, sem hann sinnti til ársins 2013, eða í rúma tvo áratugi.

Segir ennfremur að Jónas hafi verið farsæll í starfi og lagt mikið af mörkum til kristniboðs og hjálparstarfs á starfsævi sinni. Jónas sat í stjórn Kristniboðssambandsins í mörg ár, þar af tæpan áratug sem formaður til ársins 2008.

Jónas og Ingibjörg eignuðust sex börn; Huldu Björgu, Hönnu Rut, Hrönn, Höllu, Þóru Björk og Jónas Inga.

Barnabörnin eru 17 talsins og langafabörnin tvö.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert