Ferðaþjónustan örvæntir ekki

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. Ljósmynd/Aðsend

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að verið sé að afla upplýsinga um hvað það þýðir að Ísland sé komið á hæsta hættustig Sóttvarnarstofnunar Bandaríkjanna. Hún kveðst þó ekki svartsýn enda sé stemningin í samfélaginu breytt. 

Í gær birti Sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna uppfærðan lista yfir þau lönd sem Bandaríkjamönnum, bæði bólusettum og óbólusettum, er ráðlagt að ferðast ekki til vegna ástand heimsfaraldursins þar.

Ísland var á þeim lista í fyrsta skipti og því er ekki komið á hreint hvaða afleiðingar það muni hafa fyrir íslenska ferðaþjónustu. 

Um er að ræða tilmæli en ekki bann og þrátt fyrir þau verður bólusettum ekki gert að sæta sóttkví við heimkomu til Bandaríkjanna, að því sem kemur fram á vef sóttvarnarstofnunarinnar.

Mikilvægasti markaðurinn

Bjarnheiður segir þetta gríðarlega mikilvægt. Bandaríkjamenn eru langmikilvægasti markaðurinn fyrir íslenska ferðaþjónustu í augnablikinu, að hennar sögn. Allt eru þetta þó bólusettir Bandaríkjamenn. Þeir koma í litlum hópum, ráða sér margir einkaleiðsögumenn og skilja eftir sig mikil verðmæti. 

Bjarnheiður telur að þessi hópur vilji ferðast og muni gera það svo lengi sem ekki verða lögð á bönn eða mjög íþyngjandi aðgerðir, fólk sé farið að sjá fram á að ástandið sé komið til að vera og vilji fara að lifa sínu eðlilega lifi á ný. „Við erum því ekki mjög örvæntingarfull.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert