Gengur ekki til lengri tíma

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Unnur Karen

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir það eiga eftir að koma í ljós hvaða áhrif það hefur að Sótt­varna­stofn­un Banda­ríkj­anna (CDC) hækkaði hættumat sitt á Íslandi í gær.

Landið er nú á hæsta hættu­stigi stofn­un­ar­inn­ar og er Banda­ríkja­mönn­um nú ráðið frá að ferðast til Íslands, eins og mbl.is greindi fyrst frá í gær.

„Fyrstu vísbendingar eru þær að þetta hafi ekki nein gríðarleg áhrif á bókunarstöðu hér, fólk er ekki að afbóka í stórum stíl komu sína. Að hvaða marki það mun hafa áhrif til lengri tíma þori ég ekki að segja til um,“ segir Þórdís Kolbrún og bætir við að Bandaríkjamenn séu almennt mjög mikilvægur markaður fyrir íslenska ferðamannaiðnaðinn. 

„Núna eftir heimsfaraldurinn hafa bandarískir ferðamenn verið mikilvægasti markaðurinn vegna þess að við höfum fengið svo marga gesti þaðan. Þannig að ég vona að þetta hafi ekki neikvæðar afleiðingar og við höldum áfram að taka á móti fjölda fullbólusettra bandarískra ferðamanna.“

Bandaríkjamenn eru langstærstur hluti þeirra ferðamanna sem hingað hafa komið undanfarin misseri. Til marks um það voru þeir 46,6% þeirra ferðamanna sem flugu á brott frá Keflavíkurflugvelli í júlí.

Þar á eftir komu Pólverjar og Þjóðverjar með 10,2% og 7,9% brottfara.

Á okkar ábyrgð að allir séu á sömu blaðsíðu

Mikil örtröð hefur myndast á Keflavíkurflugvelli undanfarnar vikur og segir Þórdís Kolbrún að búast hafi mátt við því.

„Öll skoðun og tékk sem þarf að gera á vellinum hægja á flæðinu þar innandyra. Þótt hver skoðun taki ekki nema örfáar sekúndur þá hefur það áhrif þegar þú ert með svona mikinn fjölda. Ég skildi það sem svo að þegar við könnuðum bólusetningarvottorð þá værum við ekki að kanna hvert og eitt einasta heldur að taka stikkprufur,“ segir Þórdís Kolbrún og bætir við að kerfin þurfi að tala betur saman. 

„Við getum ekki látið það ganga í lengri tíma að svona öngþveiti myndist á vellinum. Ég veit þó að fólk er að sinna sínum störfum eftir bestu getu. Það er á okkar ábyrgð, aðilanna í stjórnkerfinu, að það séu allir á sömu blaðsíðu hvað varðar framkvæmd.

Svo er spurning til hvers langs tíma þetta fyrirkomulag á að vera. Sá tímapunktur er þó greinilega ekki núna því við erum enn að taka nýjar ákvarðanir,“ segir Þórdís Kolbrún og ítrekar að koma verði í veg fyrir að öngþveitið hafi áhrif á Ísland sem ferðamannastað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert