Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands, segir það ekki koma sér á óvart að skólastarf verði háð gildandi sóttvarnaaðgerðum innanlands. Hann leggur áherslu á að það þurfi að koma í veg fyrir að heilu deildunum sé lokað ef upp komi smit innan veggja skólanna.
Í máli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á blaðamannafundi fyrr í dag kom fram að gildandi sóttvarnaráðstafanir verða framlengdar um tvær vikur frá og með laugardeginum 14. ágúst og til 27. ágúst.
Mun því 200 manna samkomubann, eins metra regla og grímuskylda innanhúss þar sem ekki er hægt að viðhalda fjarlægðartakmörkum eiga einnig við skólastarf. Þó fá nemendur sem fæddir eru eftir 2006 að taka grímuna niður í skólastofu.
„Það kemur mér svo sem ekki á óvart að það gildi sömu takmarkanir í skólastarfinu og innanlands eins og staðan er í samfélaginu í augnablikinu. Spurningin er hvort það verður eitthvað skoðað á næstunni með útfærslu á þessu,“ segir Þorsteinn en í máli Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, kom fram að almennar reglur um skólastarf yrðu útfærðar í samráði við skólasamfélagið. Fram undan væru fundir með stjórnendum innan skólakerfisins.
Þorsteinn segir að ekki sé enn búið að boða fund með stjórnendum en hann gerir ráð fyrir að það verði á allra næstu dögum.
„Þó svo að um sé að ræða að samskonar reglur og gilda almennt í samfélaginu gildi einnig fyrir skólastarfið þá þarf hugsanlega að setja einhverjar sértækar reglur um innri starfsemi skólanna. Innan skólanna erum við með töluverða nánd á milli barna og fullorðinna og einnig barna innbyrðis. Því þarf að mínu viti að velta fyrir sér á næstu dögum hvað skuli gera ef kemur upp smit í skólastofum,“ segir Þorsteinn og leggur áherslu á að ef það gerist þurfi að lágmarka rask á skólastarfinu.
„Hvaða leiðir eru þá til úrlausnar hugsanlega aðrar en að loka bara stórum parti skólanna á meðan stórir hópar fara kannski í sóttkví. Það þarf að lágmarka þær aðgerðir komi upp smit í skólunum. Það er nokkuð sem stjórnvöld hljóta að ræða við okkur stjórnendur skólanna á næstu dögum.“
Þorsteinn nefnir að stutt sé í að skólastarf hefjist en flestir kennarar hefja undirbúning eftir helgi og nemendur mæta síðan til skóla viku síðar.
„Við þurfum að hafa hraðar hendur í að skipuleggja aðgerðir.“