Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun leggja til við forseta Íslands að þing verði rofið 12. ágúst en alþingiskosningar fara fram 25. september næstkomandi. Það markar því endalok þessa kjörtímabils.
Þetta kom fram í máli Katrínar á blaðamannafundi í Duus Safnahúsinu í Reykjanesbæ rétt í þessu. Hún, ásamt Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og Sigurði Inga Jóhannssyni, sveitarstjórnar- og samgönguráðherra, tók saman kjörtímabil ríkisstjórnarinnar. Þau voru sammála um að samstarf ríkisstjórnarinnar hefði gengið vel.
Sigurður Ingi sagði að vel hefði gengið að hrinda málum í framkvæmd þrátt fyrir heimsfaraldurinn. Hann sagði að ákveðið hefði verið að fjárfesta í innviðum og ríkisstjórnin nýtt aðstæður sem gáfust til þess. Þá hefði mikil áhersla verið lögð á atvinnuleysismál og ánægjulegt að sjá að atvinnuleysistölur væru farnar að nálgast það sem var fyrir Covid-19.
Bjarni sagði að í efnahagsmálum hefði bæði verið horft til langs tíma og lagt upp úr samstarfi við Seðlabanka og aðila vinnumarkaðar. Bjarni sagði að stoðir hefðu verið byggðar undir ríkisfjármálin rétt um áratug eftir fjármálahrunið sem gerðu ríkissjóði kleift að takast á við gríðarlegan skell.
Að auki væru nú lægstu húsnæðislánavextir og vextir Seðlabankans í sögunni. Staðið hefði verið við fyrirheit um skattalækkanir þrátt fyrir heimsfaraldur, bæði á almenning og í formi tryggingagjalds á fyrirtæki.