Nýjar sprungur sjást nú í Gónhóli nálægt eldstöðvunum við Fagradalsfjall. Þær virðast hafa myndast á síðastliðnum tveimur vikum.
Líklega eru þetta togsprungur sem raða sér nyrst í Gónhóli í stefnu kvikugangsins, suðaustur af megingígnum, að því er segir á vef Veðurstofu Íslands.
Svæðið, sem var fjölfarinn útsýnisstaður við eldstöðvarnar, er núna umlukið hrauni og einungis aðgengilegt á þyrlum.
Nokkrar kenningar hafa verið nefndar um hvað veldur sprungunum, til að mynda litlir jarðskjálftar, sig í kjölfar minnkandi kvikuþrýstings eða hraunfargið sem umlykur hólinn.
Ekki er hægt að útiloka að sprungumyndanirnar séu til marks um að kvika sé að færast nær yfirborði við Gónhól. Ef hún gerir það má gera ráð fyrir að sprungurnar gliðni enn frekar og að gas og gufur sjáist stíga upp úr þeim.
Við slík skilyrði er ekki ráðlegt að vera á Gónhóli og beinir Veðurstofan þeim tilmælum til þyrluflugmanna sem lenda þar að gæta varúðar.
„Ef til þess kemur að nýjar gossprungur opnist á Gónhóli þá hefur það ekki afgerandi áhrif á áður útgefnar sviðsmyndir um framvindu eldgossins. Veðurstofan, líkt og undanfarna mánuði, fylgist stöðugt með þróun mála við eldstöðvarnar,“ segir á vefnum.