„Þó að markmiðin séu hin sömu þá erum við í breyttu samfélagi og í raun og veru í breyttum aðstæðum. Þannig að ég held að við séum öll að vega og meta kringumstæðurnar og þá stöðu sem við erum í,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is. Hún kynnti í dag áframhaldandi sóttvarnaaðgerðir á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar.
Svandís segir orð Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis hafa verið oftúlkuð þegar hann sagði að það væri stjórnvalda að ákveða hvort og þá til hvaða aðgerða verði gripið, til að stemma stigu við þróun kórónuveirufaraldursins hér á landi.
„Hann var með skýrar tillögur í minnisblaði gærdagsins sem snerist um að framlengja. Það voru tillögur í minnisblaði frá sóttvarnalækni eins og honum ber að koma til mín samkvæmt lögum. Það verður engin breyting á því,“ segir Svandís og bætir við að stjórnvöld ráðfæri sig við fjöldann allan af sérfræðingum og ýmsum aðilum í samfélaginu.
„Það er mikilvægt fyrir okkur að bæði skilja stöðuna betur, af hverju fólk hefur áhyggjur og hvert það vill stefna.“
Býstu við að takmarkanir séu til frambúðar?
„Ég get bara ekkert sagt um það. Þær aðgerðir sem við erum í núna eru settar í þeirri von að við sjáum betur hvert bylgjan þróast. Við vitum ekki hversu mikið þetta á eftir að versna áður en það fer að lagast. Óvissan er ekki að baki,“ segir Svandís og nefnir að sífellt þurfi að vega og meta stöðuna.
Hún segir að ekki sé komin langtímaáætlun um aðgerðir stjórnvalda en stöðugt sé verið að skiptast á skoðunum um þau mál.
„Ég tel það mjög mikilvægt að umræða um langtímaáhrif fari í gang í samfélaginu í heild vegna þess að það eru mjög mörg sjónarmið sem rata að því borði. Það mega aldrei vera einhliða ákvarðanir stjórnvalda í þeim efnum,“ segir Svandís og nefnir að sjónarmið sóttvarnayfirvalda, almennings, stjórnmálamanna og annarra hagsmunaaðila séu mikilvæg.
„Við njótum smæðarinnar á Íslandi hvað það varðar. Það er tiltölulega einfalt hér að eiga samtöl við mörg sjónarmið á stuttum tíma.“
„Við þurfum að sjá hvernig alvarleikinn þróast. Sjá hvernig Landspítala gengur með þessum stuðningi sem við erum að veita. Sjá áhrif aukinna bólusetninga bæði hjá ungmennum, hjá þeim sem fengu Janssen áður og viðkvæmum hópum sem eru nú að fara í gang,“ segir Svandís og bætir við að fjölmargar ákvarðanir hafi verið teknar, allar í því skyni að sveigja kúrfuna undir þolmörk heilbrigðiskerfisins.