Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir ekki skorta lagastoð fyrir því að flugfélög þurfi að kanna hvort tveggja bólusetningarvottorð farþega og staðfestingu þeirra á neikvæðu PCR-prófi.
Hann segir valdið vera hjá flugstjóra.
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lýst þeirri skoðun sinni að breyting á reglugerð um skyldu flugrekenda til að kanna vottorð vegna kórónuveirunnar í millilandaflugi stæðist ekki lögin sem breytingin byggir á.
Sigurður Ingi segir valdið ekki liggja í reglugerðinni heldur hjá flugstjórum vélanna.
„Það er í raun þannig að það er í höndum flugstjóra sem geta tekið ákvörðun hvort þeir flytja Íslendinga eða ekki. Það er ekki á grundvelli einhverrar allsherjarreglu sem mönnum er synjað um það.
Heldur er möguleiki, til að mynda ef menn óttast smit meðal annarra farþega eða starfsmanna eða eitthvað annað, sem flugstjóri hefur þetta vald,“ sagði Sigurður Ingi í samtali við mbl.is.