„Ég tel að það séu frekar góðir möguleikar hér,“ segir Rúna Þrastardóttir dýralæknir sem starfar í sumar hjá Landbúnaðarháskóla Íslands við rannsóknir á skordýrum. Hún kannar hvort hægt sé að rækta mölorma og hermannaflugur til manneldis eða fóðurgerðar hér á landi.
Það kom Rúnu á óvart hversu mörg fyrirtæki rækta skordýr. Hún hefur fundið 27 slík í Evrópu.
Á undanförnum árum hefur verið vaxandi áhugi á ræktun skordýra og sölu á markaði í Evrópu. Þar er lítil hefð fyrir notkun skordýra sem matvæla, öfugt við það sem lengi hefur tíðkast í öðrum heimsálfum. Skordýr eru í mörgum löndum mikilvægur próteingjafi fólks.
Sala skordýra er leyfisbundin samkvæmt Evrópureglum og háð ströngum skilmálum. Rúna bendir á að í einstaka ríkjum Evrópu hafi verið veitt leyfi fyrir sölu mölorma sem matvæla og nefnir Belgíu sérstaklega. Stundum sé boðið upp á heilar pöddur en stundum afurðir þeirra í formi dufts sem hægt er að nota í tilbúin matvæli, til dæmis hamborgara. Hún segir hægt að fá þannig matvæli á veitingastöðum í Belgíu. Hún telur þó að fólk sé almennt ekki tilbúið að þiggja slík matvæli en telur að það muni breytast með auknu framboði og betri þekkingu.
Rúna segir að skordýr henti vel fyrir laxfiska, hænur og svín. Telur hún að leyfi sé að fást til að nota skordýr sem hænsnafóður í Evrópu.
Hér á landi hefur verið gerð tilraun með ræktun skordýra í fiskafóður. Tilrauninni var hætt og telur Rúna að það hafi verið vegna þess að ekki hafi fengist nógu miklar matarleifar til að nota við ræktunina. Gerðar hafa verið fleiri tilraunir og Rúna telur að matarsóun sé mikil hér á landi og með betri flokkun úrgangs væri hægt að fá mikið hráefni til að nota við ræktun skordýra.
Rúna er að skoða hvað skordýrin éta og hversu mikið. Við ræktunina notar hún hrat frá bjórframleiðslu ásamt gulrótum og kartöflum. Hermannaflugurnar fá einnig afganga af grænmeti og ávöxtum úr eldhúsinu. Flugurnar hennar eru orðnar þokkalega stórar, yfir einn sentímetri að lengd. Einnig er hún komin með álitlegar bjöllur.
Hún segir að þetta sé áhugavert svið að rannsaka og hefur trú á að skordýrarækt til framleiðslu matvæla og fóðurs geti orðið að alvöru atvinnugrein eftir fimm ár eða svo.